Erlent

Fimmtungur segir hafa verið rangt að frelsa þrælana

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump hefur margsinnis sagt að hann vilji banna múslímum að koma til Bandaríkjanna. Hann vill byggja stóran vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og hefur kallað Mexíkóa þjófa og nauðgara. Hann er nú langfremstur meðal jafningja í forvali Repúblikanaflokksins en nýjar kannanir gefa til kynna að ummæli hans hafi unnið Trump mikinn fjölda stuðningsmanna.

Tæp tuttugu prósent af stuðningsmönnum Trump telja að Abraham Lincoln hefði ekki átt að frelsa þeldökka þræla í Bandaríkjunum. Þar að auki sögðust 17 prósent þeirra ekki vera viss um hvort að aðgerðir forsetans hefðu verið réttar. Þetta kemur fram í nýlegri samantekt New York Times sem unnin er upp úr tveimur spurningakönnunum og niðurstöðum forvalsins í Suður-Karólínu.

Þá segir einnig að fjölmargir stuðningsmenn hans í Suður-Karólínu styðji það að banna samkynhneigðu fólki að koma til Bandaríkjanna, en það er eitthvað sem Trump hefur ekki nefnt í kosningabaráttunni. Meðal stuðningsmanna Trump er stuðningurinn við þessa hugmynd tvöfaldur miðað við hjá stuðningsmönnum Ted Cruz og Marco Rubio.

Einnig voru kjósendur í forvalinu í Suður-Karólínu spurðir hvort að hvítir væru æðri kynstofn. 78 prósent þeirra sögðu svo ekki vera, tíu prósent sögðu já og ellefu prósent voru ekki viss. Meðal stuðningsmanna Donald Trump sögðu þó 68 prósent að hvítir væru ekki æðri.

38 prósent stuðningsmanna hans óska þess að Suðurríkin hefðu unnið borgarastríð Bandaríkjanna. Það er mun hærra hlutfall en hjá öðrum frambjóðendum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×