Erlent

Fyrir rétti vegna dauða Aylan Kurdi

Samúel Karl Ólason skrifar
Dauði Aylan beindi sjónum heimsins að vanda flóttafólks.
Dauði Aylan beindi sjónum heimsins að vanda flóttafólks. Vísir/AFP
Tveir smyglarar eru sakaðir um að hafa valdið dauða hins þriggja ára gamla Aylan Kurdi. Þeir voru í dag færðir fyrir dómara í Tyrklandi. Aylan Kurdi fannst látinn á ströndinni í Bodrum þann 2. september 2015. Myndir af líki hans vöktu mikinn óhug um heim allan og vörpuðu ljósi á vanda flóttafólks.

Mufawaka Alabash and Asem Alfrhad eru sakaðir um að smygla fólki og að valda dauða fimm manns. Samkvæmt frétt BBC eiga þeir 35 ára fangelsisdóm yfir höfði sér.

Faðir Aylan lifði af, en móðir hans og bróðir dóu einnig. Aylan varð á örskotsstundu holdgervingur flóttamannavandans.

Sjá einnig: Faðir Aylan Kurdi: „Börnin mín voru fallegustu börn í heimi“

Fjölskyldan hafði flúið frá Kobane í Sýrlandi þegar vígamenn íslamska ríkisins gerðu árás á borgina. Þetta var þriðja tilraun þeirra til að komast yfir Eyjahafið og stóð til að lenda á eyjunni Kos. Endastöðin var þó í Kanada þar sem föðursystir Aylan býr.

Hún hafði sótt um hæli fyrir fjölskylduna en þeirri beiðni var hafnað. Þau höfðu ekki fengið stöðu flóttafólks í Tyrklandi og máttu því ekki fara þaðan löglega.

Bátur þeirra hvolfdi þó skömmu eftir að lagt var af stað frá Bodrum. Þegar veðrið versnaði eru smyglararnir sagðir hafa yfirgefið bátinn og flóttafólkið þurfti sjálft að reyna að stýra honum án nokkurrar reynslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×