Sport

Óðinn bæði á fyrsta og tuttugasta Stórmóti ÍR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óðinn Björn Þorsteinsson.
Óðinn Björn Þorsteinsson. Vísir/Getty
Besti kúluvarpari landsins um árabil, Óðinn Björn Þorsteinsson úr ÍR, verður í eldlínunni í kúluvarpskeppninni á tuttugasta Stórmóts ÍR í frjálsum íþróttum sem fer fram í Laugardalshöllinni um næstu helgi.  

Óðinn Björn á langan feril að baki og sigraði í kúluvarpskeppni grunnskólamóts sem haldið var í tengslum við fyrsta Stórmót ÍR árið 1997.  

Hann var einnig meðal þeirra sem undirbjuggu fyrsta mótið en á meðfylgjandi mynd er Óðinn að mála kúluvarpshringinn sem notaður var í keppninni á fyrsta Stórmóti ÍR í gömlu Laugardalshöllinni 1997. Sjá mynd frá ÍR hér fyrir neðan.

Það átti sem sagt fyrir honum að liggja að taka þúsundir kasta úr kúluvarpshringnum sem hann málaði þá 15 ára gamall.  

Aðeins tveir Íslendingar hafa kastað kúlunni lengra innanhúss en Óðinn Björn Þorsteinsson sem á best kast upp á 20,22 metra frá 2012. Þeir sem hafa kastað lengra eru þeir Pétur Guðmundsson (20,66 metrar) og Hreinn Halldórsson (20,59 metrar).

Óðinn Björn Þorsteinsson tryggði sér sigur í kúluvarpi á Stórmóti ÍR í fyrra með kasti upp á 19,66 metra. Næstir honum komu þeir Sindri Lárusson og Guðni Valur Guðnason.

Tuttugasta Stórmót ÍR verður sérstaklega veglegt og af því tilefni hefur öllu besta frjálsíþróttafólki landsins í völdum greinum verið boðið til keppni sem fram fer í frjálsíþróttasala Laugardalshallarinnar  6. Til 7. febrúar.

Óðinn Björn Þorsteinsson málar hér hringinn árið 1997.Mynd/Frjálsíþróttadeild ÍR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×