Conor McGregor er að undirbúa sig á fullu þessa dagana fyrir titilbardaga í léttvigt gegn meistaranum Rafael dos Anjos.
McGregor er handhafi beltisins í fjaðurvigtinni en ætlar að vera fyrstur í UFC til þess að vera með tvö belti á sama tíma. Hans draumur er síðan að verja beltin til skiptis.
Sjá einnig: Prestur biður fyrir því að Guð skjóti eldingu í Conor
Eins og öllum ætti að vera kunnugt um er Írinn æfingafélagi og vinur Gunnars Nelson. Þeir félagar börðust tvisvar sama kvöldið í Las Vegas á síðasta ári en Gunnar verður ekki á bardagakvöldinu í næsta mánuði.
Engu að síður ætlar Gunnar að veita vini sínum hjálparhönd og hann flaug utan til Dublin í morgun til þess að æfa með Conor fyrir Dos Anjos-bardagann.
Faðir og umboðsmaður Gunnars, Haraldur Dean Nelson, tjáði Vísi að Gunnar myndi þó væntanlega ekki fara með Conor til Bandaríkjanna. Hann myndi taka æfingabúðirnar með honum í Dublin í þessum mánuði og koma svo heim.
