Viðskipti erlent

Marel hagnaðist um átta milljarða króna árið 2015

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marel.
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marel. vísir/valli
Marel hagnaðist um 56,7 milljónir evra, rúmlega átta milljarða króna, á síðasta ári. Það er nærri fimmfalt meiri hagnaður heldur en árið 2014. Þetta er meðal þess sem kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins fyrir síðasta ársfjórðung síðasta árs en uppgjörið var birt í kvöld.

Tekjur Marel á fjórða ársfjórðungi ársins 2015 námu 201,9 milljónum evra sem samsvarar rúmlega 28,8 milljörðum íslenskra króna. Tekjurnar eru tæplega tveimur milljónum evra meiri en á sama tímabili árið 2014.

Afkoma fyrirtækisins, áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta, var jákvæð upp á þrjátíu milljónir evra. Hagnaður ársfjórðungsins nam 9,9 milljónum evra, rúmlega 1,4 milljörðum króna, sem er ríflega þrefalt meiri hagnaður en á sama tímabili árið 2014.

„2015 var frábært ár fyrir Marel. Tveggja ára áætlun okkar um einfaldara og skilvirkara Marel hefur nú runnið sitt skeið og skilað miklum árangri, sem m.a. má sjá í hagræðingu á vöruframboði og framleiðslu-einingum félagsins auk þess sem reksturinn hefur verið straumlínulagaður,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í tilkyningu frá fyrirtækinu.

Á árinu gekk fyrirtækið meðal annars frá kaupum á fyrirtækinu MPS sem sérhæfir sig í framleiðslu véla fyrir fyrstu stig kjötvinnslu. Með kaupunum styrkti Marel stöðu sína sem leiðandi framleiðandi á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski.

„Skrefin sem við tökum nú í kjötvinnslunni eru um margt lík þeim sem tekin voru fyrir átta árum í kjúklingavinnslu með yfirtöku Marel á Stork. Við væntum þess að yfirtakan á MPS muni auka hag viðskiptavina og hluthafa félagsins líkt og yfirtakan á Stork hefur gert,“ segir Árni Þórður.

Útdrátt úr árfjórðungsuppgjörinu á íslensku má finna hér en hægt er að skoða það í heild sinni á ensku með því að smella hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×