Þorbergur Ingi Jónsson og Elísabet Margeirsdóttir voru valin langhlauparar ársins 2015 að mati hlaupara og lesenda hlaup.is.
Verðlaunin voru afhent í sjöunda skipti í fyrradag, sunnudaginn 7. febrúar, en verðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin í karla- og kvennaflokki.
Í öðru sæti urðu Kári Steinn Karlsson og Helga Margrét Þorsteinsdóttir og í því þriðja þau Stefán Guðmundsson og Sigurbjörg Eðvarðsdóttir.
Fjöldi tilnefninga barst frá lesendum hlaup.is en nöfn 28 hlaupara bárust að þessu sinni. Kosið var á milli sex hlaupara í karlaflokki annars vegar og kvennaflokki hins vegar.
Fossvogshlaupið var valið götuhlaup ársins og Mt. Esja Ultra utanvegahlaup ársins. Rétt eins og með valið á langhlaupurum ársins þá voru það lesendur hlaup.is sem völdu hlaup ársins með einkunnagjöfum.
