Erlent

Vill taka Mosul og Raqqa af ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segist vilja auka hraða baráttunnar gegn Íslamska ríkinu í Írak og Sýrlandi. Hann segir að bandalagið sem berjist gegn ISIS þurfi að hertaka borgirnar Raqqa og Mosul, sem eru helstu vígi hryðjuverkahópsins. Þar að auki boðar ráðherrann frekari landhernað í Írak og Sýrlandi.

Eftir tvær vikur mun Carter funda með öðrum varnarmálaráðherrum bandalagsins og segist hann ætla að ýta á þá sem hafi lagt lítið af mörkum til að gera meira.

Auk þess sagði Carter að nauðsynlegt væri að hertaka Raqqa og Mosul. Til þess vill ráðherrann virkja frekar Kúrda og íraskar sveitir. Þó segir hann að líklega muni Bandaríkin fjölga hermönnum á svæðinu. Lykilatriði sé þó að heimamenn brjóti ISIS á bak aftur að mestu leyti sjálfir.

Nú þegar notast Bandaríkin við loftárásir og skyndiárásir til að loka á birgða- og mannflutninga á milli Raqqa og Mosul. Þannig hafi þeir í raun skipt yfirráðasvæði ISIS í tvennt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×