Handbolti

Erlingur fær einn besta hornamann heims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hans Óttar Lindberg mætir til starfa hjá Berlínarrefunum eftir EM.
Hans Óttar Lindberg mætir til starfa hjá Berlínarrefunum eftir EM. vísir/afp
Erlingur Richardsson, þjálfari Füchse Berlín í þýsku 1. deildinni í handbolta, hefur fengið heldur betur frábær liðsstyrk.

Bob Hanning, framkvæmdastjóri Berlínarrefanna, flaug til Póllands í gær og gekk frá samningi við danska hægri hornamanninn Hans Óttar Lindberg sem hefur verið einn albesti hornamaður heims undanfarin ár. Samningurinn við þennan 34 ára gamla leikmann gildir út leiktíðina 2018/2019.

Lindberg varð atvinnulaus á dögunum þegar stórliðið Hamburg SV varð gjaldþrota, en fljótlega var danski hornamaðurinn orðaður við Refina í Berlín.

„Við erum að fá einn besta hægri hornamann heims. Fyrir erum við með Mattias Zachrisson en saman eru þeir besta hornapar í heimi,“ segir Bob Hanning á heimasíðu Füchse Berlín.

Nýju liðsfélagarnir og samkeppnisaðilarnir um stöðuna í hægri horni Refanna mætast í kvöld á EM í Póllandi þar sem Danir og Svíar eigast við í Norðurlandaslag í milliriðli tvö.

Lindberg verður nú bara þjálfaður af Íslendingum. Erlingur Richardsson heldur um stjórnartaumana hjá Füchse Berlín og danska landsliðið er auðvitað þjálfað af Guðmundi Guðmundssyni.

Daninn, sem á íslenska foreldra, hefur æfingar með Refunum þegar Evrópumótinu lýkur en hjá Füchse Berlín verður hann einnig samherji Bjarka Más Elíssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×