Erlent

Birti mynd af barnungum syni sínum við hlið vopns

Samúel Karl Ólason skrifar
Dómstólar í Bretlandi hafa dæmt 26 ára konu fyrir að ganga til liðs við Íslamska ríkið og hvetja til hryðjuverka á samfélagsmiðlum. Tareena Shakil sagði fjölskyldu sinni í október 2014 að hún ætlaði í frí. En þess í stað tók hún barnungan son sinn með sér til Raqqa, höfuðborgar ISIS.

Hún er fyrsta breska konan sem fer fyrir dómstóla sökuð um að hafa gengið til liðs við ISIS.

Hún var ákærð fyrir að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök og fyrir að hvetja til hryðjuverka á samfélagsmiðlum, en hún neitaði báðum ákærum. Hún sagðist hafa farið til Sýrlands til að öðlast betra líf fyrir sig og son sinn.

Meðal mynda sem Shakil birti á samfélagsmiðlum voru myndir af syni hennar með grímu merktri ISIS og önnur af honum við hlið vopns.

Eftir að hafa búið í Raqqa í tvo og hálfan mánuð sagðist hún hafa ákveðið að flýja og kom sér um borð í rútu til Tyrklands. Mánuði seinna flaug hún aftur til Bretlands þar sem hún var handtekinn. Refsing hennar hefur ekki verið ákveðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×