Handbolti

Lærisveinar Patreks áttu engin svör gegn Túnis

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Patrekur þjálfaði lið Hauka hér á árum áður.
Patrekur þjálfaði lið Hauka hér á árum áður. Vísir/Andri Marinó
Austurríska landsliðið í handbolta undir stjórn Patreks Jóhannessonar tapaði í dag 29-34 í æfingarleik gegn Túnis á æfingarmóti en austurríska landsliðið er þessa dagana að undirbúa sig fyrir leikina sem eru framundan í undankeppni HM.

Austurríki hefur unnið báða leiki sína hingað til í 2. riðli fyrsta stigs undankeppninnar en framundan eru tveir leikir gegn Ítalíu og leikir gegn Rúmeníu og Finnlandi.

Austurríska liðið byrjaði leikinn betur og hafði yfirhöndina á fyrstu mínútum leiksins en leikmönnum Túnis tókst að ná tökum á leiknum og náðu sex marka forskoti fyrir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 19-13.

Meira jafnræði var í seinni hálfleiknum en austurríska liðinu tókst ekki að ógna forskotinu og lauk leiknum með 34-29 sigri Túnis.

„Það var gott að fá leik gegn líkamlega sterku liði eins og Túnis er með því þá sjáum við að hverju við þurfum að stefna að. Þeir voru einfaldlega sterkari en við í dag og það er næg vinna framundan fyrir okkur,“ sagði Patrekur í samtali við heimasíðu austurríska handboltasambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×