Erlent

Formaður segir Tyrki ætla að ráðast á Kúrda í Sýrlandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þessir Kúrdar börðust við lögreglu í Tyrklandi
Þessir Kúrdar börðust við lögreglu í Tyrklandi nordicphotos/afp
„Áætlunin um örugga svæðið er ætluð til að stöðva Kúrda en ekki Íslamska ríkið (ISIS). Tyrkir ættu að vinna með Kúrdum til að bola Íslamska ríkinu burt,“ sagði Selahattin Demirtas, formaður flokks Kúrda á tyrkneska þinginu, við BBC í gær.

„Aukið samstarf verður nú á landamærasvæðinu og aukinni orku verður varið í samstarfið,“ sagði John Kirby, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, en Bandaríkjastjórn og ríkisstjórn Tyrklands vinna nú að áætlun sem sögð er miða að því að bola Íslamska ríkinu burt frá landamærum Tyrklands og Sýrlands.

Íslamska ríkið fer nú með völdin á 90 kílómetra landræmu á svæðinu. Á öðrum hlutum landamæranna fara YPG, hersveitir verkamannaflokks Kúrda (PYD) í Sýrlandi, með völdin. YPG hafa nýverið sakað Tyrki, sem vinna með þeim í baráttunni gegn Íslamska ríkinu, um að skjóta sig í bakið. Tyrkir blönduðu sér nýverið í baráttuna við Íslamska ríkið eftir árásir þess á Tyrkland, meðal annars á bæinn Suruc, nálægt landamærunum.

YPG og PYD eru nátengd Verkamannaflokki Kúrda í Tyrklandi, PKK, sem Tyrkir gerðu ólöglegan á sínum tíma. Tyrkir varpa um þessar mundir sprengjum á bæði PKK og Íslamska ríkið úr lofti en PKK berjast einnig við Íslamska ríkið.

Tyrkneska ríkisstjórnin lýsti því yfir í vikunni að árásir PKK á Tyrki gerðu friðarviðræður milli aðila ómögulegar, en deilur PKK og Tyrkja hafa stigmagnast undanfarnar vikur. Tyrkir líta bæði á Íslamska ríkið og PKK sem hryðjuverkasamtök.

„Það er ómögulegt að ræða um frið við þá sem ógna þjóðaröryggi okkar og bræðralagi,“ sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, um PKK.

„Tyrkneska ríkisstjórnin óttast stofnun sjálfstæðs ríkis Kúrda á svæði sem nú tilheyrir Sýrlandi,“ sagði Demirtas. Hann bætti því við að Erdogan, forseti Tyrklands, myndi aldrei leyfa því að gerast og myndi reyna að koma í veg fyrir stofnun ríkisins. Sama hvað nauðsynlegar aðgerðir kostuðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×