Tónlist

Stærstu tónleikarnir til þessa

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Arnar Freyr og Helgi Sæmundur stíga á svið með lifandi hljómsveit í kvöld.
Arnar Freyr og Helgi Sæmundur stíga á svið með lifandi hljómsveit í kvöld. Vísir/Ernir
Hljómsveitin Úlfur Úlfur heldur útgáfutónleika fyrir plötuna Tvær plánetur sem kom út í seinasta mánuði. Platan hefur vægast sagt slegið í gegn en ásamt því að hafa rokselst í verslunum hafa lögin verið spiluð yfir 100.000 sinnum á Spotify.

„Okkur var ráðlagt frá því að setja plötuna á Spotify svona stuttu eftir útgáfu af því að það mundi koma niður á sölunni. En við teljum okkur vera að græða á því að hafa hana þar. Þá getur hver sem er hlustað á hana hvar og hvenær sem er og þetta hefur alls ekki komið niður á sölunni á plötunni,“ segir Arnar Freyr Frostason, meðlimur sveitarinnar, en með honum er Helgi Sæmundur Guðmundsson.

Það er allt tilbúið fyrir tónleika kvöldsins en þetta verða stærstu tónleikar sem Arnar og Helgi hafa haldið hingað til. „Þetta er allt að smella saman hjá okkur. Við gáfum okkur nægan tíma eftir útgáfu plötunnar enda eru þetta langstærstu tónleikarnir okkar. Það er bara tvisvar á ævinni sem maður leggur svona mikið í tónleika. GKR, sem er ungur íslenskur rappari sem ég peppa, hitar upp fyrir okkur. Svo verðum við með lifandi hljómsveit og bakraddir. Þetta verður klikkað.“

Úlfur Úlfur hafa verið starfandi frá árinu 2010 en hefur þó unnið saman að tónlist í allt að 14 ár. Helgi Sæmundur og Arnar Freyr voru áður meðlimir í hljómsveitinni Bróður Svartúlfs sem sigraði í Músíktilraunum árið 2009. Mikill uppgangur hefur verið í íslenskri rapptónlist seinustu ár og Úlfur Úlfur er stór ástæða fyrir því enda afar vinsæl hér á landi.

Miðasala á tónleikana fer fram á midi.is og kostar miðinn 2.500 krónur. Tónleikarnir verða í Gamla Bíói og verður húsið opnað klukkan níu í kvöld.


Tengdar fréttir

Sumarlífið: Úlfur Úlfur með svakalegt útgáfupartý

Davíð Arnar Oddgeirsson og Ósk Gunnarsdóttir voru mætt með Sumarlífið í útgáfupartý á Loft Hostel. Úlfur Úlfur gaf út plötuna Tvær Plánetur í gær og einnig var myndband við lagið Brennum allt frumsýnt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×