Valur sem ekur nú hópi Þjóðverja hringinn sagði um 100 fólksbíla vera við lónið og 15 rútur, en þrjú eða fjögur kvennaklósett, og tvær þvagskálar og einn salernisbás fyrir karla. „Það eru um þrjátíu konur sem bíða í röð,“ sagði hann.
Valur sagði sjaldgæft að við þjóðveginn væru nægjanlega mörg klósett til að taka á móti stórum hópum ferðamanna, sérstaklega á Suðurlandi þar sem fjöldi ferðamanna er hvað mestur.
Við Seljalandsfoss anni salernisaðstaðan engan veginn þeim mikla fjölda sem heimsækir staðinn. „Þar er alla daga alla tíma löng biðröð vegna þess að þar er eitt klósett fyrir fatlaða, annað fyrir karla og þriðja fyrir konur,“ sagði Valur.


„Útsvarsgreiðendur á Hvolsvelli geta ekki staðið í því að setja þetta upp, hið opinbera verður að gera það,“ segir Kári.
„Þetta er alveg hræðilegt sums staðar. Það verður bara að setja upp klósett og láta borga fyrir það. Fólk er vant því víða um lönd,“ bætir hann við.
„Það þarf að setja aukinn kraft í uppbyggingu innviða, þar á meðal klósetta,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar. Ríkisstjórnin lagði 850 milljónir króna til uppbyggingar ferðamannastaða í maí. „Þetta er gott fyrsta skref,“ segir hann.
Skapti Örn segir að áætlað hafi verið að verja þurfi milljarði króna árlega til uppbyggingar ferðamannastaða.
„Það kann að vera að sú tala þurfi jafnvel að hækka því að ferðamönnum hefur fjölgað meira það sem af er þessu ári en undanfarin ár,“ segir Skapti.