Íslenski boltinn

Frumsýningarkvöld Leiknis í metabækurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sindri Björnsson fagnar marki sínu sem kom Leikni í 2-0 eftir þrettán mínútur.
Sindri Björnsson fagnar marki sínu sem kom Leikni í 2-0 eftir þrettán mínútur. Vísir/Valli
Leiknismenn áttu algjöra draumabyrjun á frumsýningarkvöldi félagsins í efstu deild en Breiðholtsliðið vann þá 3-0 sigur á Val í 1. umferð Pepsi-deildar karla í sunnudagskvöldið.

Ekkert félag hefur unnið stærri sigur í sínum fyrsta leik meðal þeirra bestu en Fjölnir (2008) og Skallagrímur (1997) unnu líka 3-0 sigra í fyrsta leik sínum í efstu deild. Alls hafa bara 6 af 22 félögum sem þreytt hafa frumraun sína í efstu deild frá 1955 náð að vinna sinn fyrsta leik.

Leiknismenn náðu reyndar ekki meti Þórsara (frá 1977) yfir stystu bið eftir fyrsta marki þrátt fyrir að vera mjög nálægt því en Leiknisliðið bætti hins vegar metin yfir stystu bið eftir marki númer tvö og þrjú.

Þórsarar biðu aðeins í sex mínútur eftir að skora sitt fyrsta mark á sínu fyrsta tímabili í efstu deild 1977 en þeir voru líka búnir að fá á sig þrjú mörk eftir 63 mínútna leik í 3-2 tapi í Keflavík. Fyrsta mark Leiknis í leiknum kom eftir átta mínútur.

Leiknisliðið var hins vegar komið í 2-0 eftir aðeins þrettán mínútur á Val og setti með því nýtt met en gamla metið átti lið ÍBH frá því fyrir 58 árum. Albert Guðmundsson var þarna nýkominn heim frá ævintýrum sínum í Frakklandi en hann var spilandi þjálfari Hafnfirðinga í frumraun þeirra meðal þeirra bestu og skoraði sjálfur annað mark liðsins á tímabilinu á 37. mínútu.

Leiknismenn bættu síðan 47 ára met Eyjamanna þegar þeir skoruðu sitt þriðja mark á 71. mínútu. Eyjamenn innsigluðu 3-1 sigur á Val í fyrstu umferðinni 1968 með því að skora þriðja mark sitt á 81. mínútu leiksins sem fór fram í Eyjum.

Leiknismenn hafa ennfremur ekki fengið á sig mark eftir 90 mínútur í efstu deild og eru sjöunda félagið sem heldur hreinu í fyrsta leik. Nú er að sjá hvort Leiknismenn ná að ógna varnarmetunum í næstu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×