Lagt til atlögu Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar 24. apríl 2015 07:00 Fátt er þreyttara en umræða um hvað umræðan sé orðin slæm, aðeins sé talað til hnjóðs og uppbyggilegar samræður séu af skornum skammti. Heimsósómakveðskapur er þreytandi til lengdar, ekki síst þar sem hver kynslóð hefur verið þess fullviss að einmitt á hennar tíma hafi heimur versnandi farið, Snorrabúð sé stekkur orðinn. Mæli þarft eða þegi, segir í Hávamálum og oft og tíðum telja einhverjir sig rísa yfir flatneskju umræðunnar, einmitt með þau heilræði í huga, til að gefa öðrum ráð um hvernig sé nú réttast að haga máli sínu. Að þessum orðum skrifuðum er rétt að taka það fram að þetta er einmitt slíkur pistill. Það er nefnilega eftirtektarvert hve áberandi það er orðið á mörgum sviðum þjóðlífsins að við erum hætt að hlusta hvert á annað. Allt of oft líður manni þannig í samræðum að viðmælandi sé aðeins að bíða eftir því að þú hættir að búa til hljóð með talfærunum svo hann geti haldið áfram þar sem frá var horfið við að útmála sína skoðun á málunum. Skoðun sem að sjálfsögðu er sú eina rétta. Þetta er gott og blessað við eldhúsborðið, í heita pottinum og meira að segja í umræðum á netinu. Jafnvel í leiðurum blaða. En það er öllu verra þegar þeir sem hafa raunveruleg völd, þeir sem kjörnir eru til að þinga um bestu og farsælustu leið fyrir þjóðina, eru svo sanntrúaðir um eigið ágæti að ekki er nokkur leið að eiga í skoðanaskiptum við þá. Þeim sem fylgjast með störfum Alþingis Íslendinga, og samskiptum ríkisstjórnar og þingheims, er vorkunn þó þeir velti því stundum fyrir sér hvort sá háttur sem Íslendingar hafa valið að hafa á stjórnskipan sinni sé sá eini rétti. Samskipti er sagt, en það er eitt af þessum orðum með forskeytinu sam- sem á að lýsa því að um eitthvað sameiginlegt sé að ræða. Samtal, samræður, samvinna eru önnur slík orð, að ekki sé minnst á samráð. Þessi orð eru hins vegar ekki mjög lýsandi fyrir þá umræðu- og stjórnunarhefð sem virðist hafa fest sig í sessi hér á landi, á þessum tímum tals, ræðna, vinnu og ráðs. Það er ekki þannig að þingmenn og ráðherrar ræði saman. Nei, fólk heldur sínar ræður, oftar en ekki algjörlega án tillits til þess hvað sá eða sú sem ræðunni er beint að í raun sagði, nema þá helst til að sproksetja viðkomandi. Og samvinna og samráð eru ekki praktíseruð, þeir sem ráða ráða einfaldlega í krafti meirihlutans. Eða af hverju virðist það koma ráðamönnum á óvart að staðan á vinnumarkaðnum sé komin í óleysanlega hnút? Af hverju er opnað á einhvers konar samráð um mögulega þjóðarsátt eftir að verkföll eru hafin og allt komið í óefni? Mögulega vegna þess að list samráðsins er okkur týnd, en ráðinu kunnum við að beita. En kannski hefur þetta alltaf verið svona og engin breyting orðið á. Kannski höfum við alltaf viljað að bókin sem um ævi okkar verði skrifuð sé Lagt til atlögu eftir Hammond Innes frekar en Dalalíf Guðrúnar frá Lundi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Alþingi Kolbeinn Óttarsson Proppé Mest lesið Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun CP félagið, er það til? Steinunn Þorsteinsdóttir Skoðun Isavia - þar sem sögur fara á flug Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Að ná sér Skúli S. Ólafsson Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Hvernig væri að Isavia setti viðskiptavini sína í forgang? Ó. Ingi Tómasson Skoðun
Fátt er þreyttara en umræða um hvað umræðan sé orðin slæm, aðeins sé talað til hnjóðs og uppbyggilegar samræður séu af skornum skammti. Heimsósómakveðskapur er þreytandi til lengdar, ekki síst þar sem hver kynslóð hefur verið þess fullviss að einmitt á hennar tíma hafi heimur versnandi farið, Snorrabúð sé stekkur orðinn. Mæli þarft eða þegi, segir í Hávamálum og oft og tíðum telja einhverjir sig rísa yfir flatneskju umræðunnar, einmitt með þau heilræði í huga, til að gefa öðrum ráð um hvernig sé nú réttast að haga máli sínu. Að þessum orðum skrifuðum er rétt að taka það fram að þetta er einmitt slíkur pistill. Það er nefnilega eftirtektarvert hve áberandi það er orðið á mörgum sviðum þjóðlífsins að við erum hætt að hlusta hvert á annað. Allt of oft líður manni þannig í samræðum að viðmælandi sé aðeins að bíða eftir því að þú hættir að búa til hljóð með talfærunum svo hann geti haldið áfram þar sem frá var horfið við að útmála sína skoðun á málunum. Skoðun sem að sjálfsögðu er sú eina rétta. Þetta er gott og blessað við eldhúsborðið, í heita pottinum og meira að segja í umræðum á netinu. Jafnvel í leiðurum blaða. En það er öllu verra þegar þeir sem hafa raunveruleg völd, þeir sem kjörnir eru til að þinga um bestu og farsælustu leið fyrir þjóðina, eru svo sanntrúaðir um eigið ágæti að ekki er nokkur leið að eiga í skoðanaskiptum við þá. Þeim sem fylgjast með störfum Alþingis Íslendinga, og samskiptum ríkisstjórnar og þingheims, er vorkunn þó þeir velti því stundum fyrir sér hvort sá háttur sem Íslendingar hafa valið að hafa á stjórnskipan sinni sé sá eini rétti. Samskipti er sagt, en það er eitt af þessum orðum með forskeytinu sam- sem á að lýsa því að um eitthvað sameiginlegt sé að ræða. Samtal, samræður, samvinna eru önnur slík orð, að ekki sé minnst á samráð. Þessi orð eru hins vegar ekki mjög lýsandi fyrir þá umræðu- og stjórnunarhefð sem virðist hafa fest sig í sessi hér á landi, á þessum tímum tals, ræðna, vinnu og ráðs. Það er ekki þannig að þingmenn og ráðherrar ræði saman. Nei, fólk heldur sínar ræður, oftar en ekki algjörlega án tillits til þess hvað sá eða sú sem ræðunni er beint að í raun sagði, nema þá helst til að sproksetja viðkomandi. Og samvinna og samráð eru ekki praktíseruð, þeir sem ráða ráða einfaldlega í krafti meirihlutans. Eða af hverju virðist það koma ráðamönnum á óvart að staðan á vinnumarkaðnum sé komin í óleysanlega hnút? Af hverju er opnað á einhvers konar samráð um mögulega þjóðarsátt eftir að verkföll eru hafin og allt komið í óefni? Mögulega vegna þess að list samráðsins er okkur týnd, en ráðinu kunnum við að beita. En kannski hefur þetta alltaf verið svona og engin breyting orðið á. Kannski höfum við alltaf viljað að bókin sem um ævi okkar verði skrifuð sé Lagt til atlögu eftir Hammond Innes frekar en Dalalíf Guðrúnar frá Lundi.
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun