Körfubolti

Chicago með mikla yfirburði í sigri á Oklahoma City Thunder

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Russel Westbrook sækir hér inn að körfunni með Derrick Rose í bakinu.
Russel Westbrook sækir hér inn að körfunni með Derrick Rose í bakinu. Vísir/getty
Chicago Bulls komst aftur á sigurbraut með 9 stiga sigri á Oklahoma City Thunder í kvöld en Chicago hafði tapað þremur leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld.

Chicago Bulls náði forskotinu strax á fyrstu mínútu leiksins og sleppti forskotinu aldrei en leikmönnum Oklahoma tókst að saxa á forskotið skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 54-52.

Þriðji leikhluti var hinsvegar í eign leikmanna Chicago Bulls sem náðu átján stiga forskoti skömmu fyrir lok leikhlutans og þrátt fyrir ágætis tilraunir leikmanna Oklahoma tókst þeim ekki að vinna upp það forskot í fjórða leikhluta.

Lauk leiknum með 105-96 sigri Chicago Bulls og var Jimmy Butler stigahæstur með 23 stig en Pau Gasol bauð upp á tvöfalda tvennu með 21 stig ásamt því að taka 13 fráköst.

Í liði Oklahoma voru það Kevin Durant og Russell Westbrook sem leiddu að vanda en Durant var stigahæstur með 29 stig og bætti Westbrook við 26 stigum.

Bosh setur hér skot yfir Anthony Davis í leiknum í kvöld.Vísir/Getty
Þá vann Miami Heat sex stiga sigur á New Orleans Pelicans í fyrsta leik dagsins 94-88 en framlengja þurfti leiknum eftir að staðan var 78-78 að venjulegum leiktíma loknum.

Chris Bosh fór fyrir liði Miami Heat með 30 stig ásamt því að taka 10 fráköst en hann náði að svara fyrir stórleik Anthony Davis í liði Pelicans sem skilaði tvennu með 29 stig og 15 fráköst.

Þetta voru aðeins fyrstu tveir leikir kvöldsins en alls fara fimm stórleikir fram í deildinni í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×