Blaðamaður Vísis átti von á því að sjá háværa Íra um allt MGM Grand-hótelið en þess í stað er hótelið stóra í Las Vegas yfirfullt af kúrekum.
Eftir því sem blaðamanni skilst er um helgina úrslit í stærstu Ródeó-keppni Bandaríkjanna. Það er augljóslega alvöru iðnaður enda auglýst alls staðar og kúrekahattar áberandi út um alla borg.
Þess utan er ekki leikið annað en country-tónlist á göngum MGM þar sem einnig er haldin mikil ráðstefna vegna úrslitanna. Magnað. Þetta er í raun eins og „Mini Texas“ og maður bíður bara eftir því að hitta Ray Krebbs.
Írarnir eru ótrúlega fáir enn sem komið er í Las Vegas og það hafði áhrif á blaðamannafund Conor McGregor og annarra keppenda í UFC 194 í gær þar sem stemningin var nákvæmlega engin.
Þeir Írar sem blaðamaður ræddi við sagði að strax í dag væri von á fjölda Íra og svo kæmu enn fleiri á föstudag.
Það verður því eitthvað þegar háværu Írarnir og kúrekarnir fara að syngja saman á göngum MGM Grand.
