Handbolti

Arnór og félagar upp í 2. sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór og félagar hafa unnið níu af 14 deildarleikjum sínum á tímabilinu.
Arnór og félagar hafa unnið níu af 14 deildarleikjum sínum á tímabilinu. vísir/stefán
Saint Raphael lyfti sér upp í 2. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með þriggja marka sigri, 28-25, á Nantes í dag.

Arnór Atlason skoraði fjögur mörk fyrir Saint Raphael í leiknum en íslenski landsliðsmaðurinn nýtti fjögur af níu skotum sínum.

Hornamaðurinn knái Raphaël Caucheteux var einu sinni sem oftar markahæstur hjá Saint Raphael en hann skoraði 11 mörk úr aðeins 13 skotum. Þá átti Slavisa Djukanovic góðan leik í marki Saint Raphael en hann varði 16 skot (47%).

Nantes var tveimur mörkum yfir, 12-14, eftir fyrri hálfleikinn og gestirnir náðu þriggja marka forskoti, 14-17, í upphafi þess seinni.

Arnór og félagar gáfust ekki upp, skoruðu sex mörkum gegn tveimur og náðu forystunni, 20-19. Nantes náði þá aftur yfirhöndinni og þegar sjö og hálf mínúta var eftir leiddu gestirnir með tveimur mörkum, 23-25.

Lokamínúturnar voru hins vegar eign Saint Raphael sem skoraði fimm síðustu mörk leiksins og tryggði sér sigurinn.


Tengdar fréttir

Enn einn sigurinn hjá PSG

Sigurganga Paris Saint-Germain í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta heldur áfram en í dag vann liðið átta marka sigur, 33-25, á botnliði Chartres á heimavelli.

Snorri Steinn markahæstur í tapi hjá Nimes

Nimes, lið þeirra Snorra Steins Guðjónssonar og Ásgeir Arnar Hallgrímssonar, beið lægri hlut fyrir Dunkerque, 23-25, á heimavelli í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×