Körfubolti

Fékk LeBron á sig á fullri ferð og slasaðist | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ellie Day er hér borin af velli.
Ellie Day er hér borin af velli. Vísir/Getty
Ótrúlegt atvik átti sér stað í leik Cleveland Cavaliers og Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í nótt.

Ellie Day, eiginkona kylfingsins Jason Day, slasaðist þegar LeBron James, stórstjarna Cleveland, lenti á henni þegar hann var að stökkva á eftir bolta sem var á leiðinni út af.

Stöðva þurfti leikinn á meðan það var verið að hlúa að Day og var hún svo borin af velli á sjúkrabörum og flutt upp á sjúkrahús.

Eftir leik sagði James að hann hefði fengið þær fregnir að líðan hennar væri góð en hann bað hana svo afsökunar á Twitter-síðu sinni eftir leik.

Það mátti sjá á James að hann var í nokkru uppnámi vegna atviksins eftir leik. „Ég var bara að reyna að halda boltanum í leik og mér finnst hræðilegt að þetta hafi verið afleiðingin,“ sagði hann.

James skoraði 33 stig í 104-100 sigri Cleveland, gaf ellefu stoðsendingar og tók níu fráköst. Russell Westbrook skoraði 27 stig fyrir Oklahoma City og Kevin Durant 25.

Vísir/AP


Vísir/Getty
Houston vann Lakers, 107-87. James Harden skoraði 25 stig fyrir Houston en Kobe Bryant 22 fyrir Lakers en hann tróð í fyrsta sinn á þessu tímabili í leiknum.

Lakers hefur nú tapað fjórtán af síðustu sextán leikjum sínum í deildinni.

Charlotte vann Toronto, 109-99, í framlengdum leik þar sem Jeremy Lin skoraði 35 stig fyrir Charlotte.

Úrslit næturinnar:

Charlotte - Toronto 109-99

Cleveland - Oklahoma City 104-100

LA Lakers - Houston 87-107

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×