Innlent

Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði líklega lokað á morgun

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þegar er búið að ákveða að loka hringveginum frá Markarfljóti að Breiðamerkurlóni. Mynd úr safni.
Þegar er búið að ákveða að loka hringveginum frá Markarfljóti að Breiðamerkurlóni. Mynd úr safni. Vísir/Auðunn
Vitlaust veður er í kortunum fyrir morgundaginn og hafa almannavarnir og lögregluembætti víða á landinu varað fólk við að vera á ferli. Spáð er austan ofsaveðri á morgun og fram á þriðjudag á öllu landinu með snjókomu og byl.

Veðrið skellur fyrst á Suðurlandi og segir í tilkynningu frá almannavörnum að ekki sé ráðlegt að vera á ferðinni eftir klukkan 12 á hádegi. Á öðrum stöðum, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu, er fólk varað við því að vera á ferðinni eftir klukkan fimm síðdegis.

Vindaspákort Veðurstofu Íslands hefur sjaldan verið litríkara en dökki guli liturinn sem sést víða á þessari mynd táknar vind í kringum 40 metra á sekúndu. 

Vindaspákort Veðurstofu Íslands
Gera má ráð fyrir mikilli ófærð á landinu öllu en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi hefur þegar verið ákveðið að loka hringveginum frá Markarfljóti að Breiðamerkurlóni fyrir allri umferð eftir hádegi á morgun. Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði verður einnig að öllum líkindum lokað klukkan fjögur síðdegis ef veðurspáin gengur eftir.

Ekkert ferðaveður verður því á landinu.

Samkvæmt tilkynningu almannavarna er talið að snjóflóðahætta muni aukast hratt samfara veðrinu en mikil úrkoma fylgir veðrinu í formi snjókomu sérstaklega á Norðurlandi og Austurlandi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×