DIMMA hefur fært tónlist Utangarðsmanna og Das Kapital í sinn þunga og harða búning og Bubbi smellpassar við sveitina enda hefur hann sjaldan verið harðari og í meiri rokkgír en einmitt núna. Í mars komu þessir félagar saman á tveimur stútfullum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu sem þar sem hljóð og mynd voru tekin upp.
Þessar upptökur koma núna út á tvöföldum geisla og mynddiski sem ber einfaldlega nafnið Bubbi OG DIMMA. Upptökur frá Bræðslunni 2015 koma með sem aukaefni á DVD diskinum en þar lék DIMMA nokkur af sínum þekktustu lögum áður en BUBBI steig á sviðið með þeim og tryllti stappfullan salinn með sínum mögnuðu rokklögum sem allir þekkja.
Lög eins og Samband í Berlín, Hírósíma, Poppstjarnan og Blindsker fá að hljóma í ógurlegum útsetningum DIMMU. Frægt er orðið þegar ryðinu rigndi niður úr lofti braggans á Bræðslunni enda hefur annar eins kraftur sjaldan verið leystur þar úr læðingi þó að byggingin hafi staðið þarna í áratugi.
Hér að neðan má sjá upptöku frá tónleikunum, þegar þessir mögnuðu listamenn tóku lagið Samband í Berlín eftir Utangarðsmenn.