Handbolti

Saint Raphaël og Nimes unnu bæði í kvöld | Ellefu íslensk mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/EPA
Íslendingaliðin Saint Raphaël og Nimes fögnuðu bæði sigri í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og eru nú í 2. og 3. sæti á eftir Paris Saint-Germain.

Snorri Steinn Guðjónsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson voru með tíu mörk saman þegar Nimes vann níu marka útisigur á Tremblay, 37-28.

Snorri Steinn skoraði sex mörk úr tíu skotum en ekkert þeirra kom af vítalínunni. Snorri klikkaði á eina víti sínu í leiknum.

Ásgeur Örn skoraði fjögur mörk úr sex skotum og var líka tvisvar rekinn útaf í tvær mínútur.

Pólverjinn Pawel Podsiadlo var markahæstur hjá Nimes í leiknum en hann skoraði tíu mörk úr fjórtán skotum.

Það var mikið skorað og þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum en Nimes leiddi 22-19 eftir hann.

Arnór Atlason náði sér ekki á strik í 27-25 útisigri Saint Raphaël á Dunkerque en Arnór skoraði aðeins eitt mark úr fimm skotum og tapaði líka þremur boltum.

Tékkinn Miroslav Jurka skoraði átta mörk úr átta skotum og Raphaël Caucheteux skoraði sex mörk.

Saint Raphaël lenti fimm mörkum undir í fyrri hálfleiknum en staðan var 14-14 í hálfleik.

Paris Saint-Germain er með 20 stig eða tveimur stigum meira en Saint Raphaël og þremur stigum meira en Nimes. Það fylgir þó sögunni að Parísarliðið á tvo leiki inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×