Erlent

Ísland verði kennslustofa um áhrif loftslagsbreytinga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og Francois Hollande, forseti Frakklands, á Hringborði Norðurslóða á Íslandi á dögunum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og Francois Hollande, forseti Frakklands, á Hringborði Norðurslóða á Íslandi á dögunum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði í dag loftslagsráðstefnuna sem fram fer í París í skugga hryðjuverkanna í borginni þann 13. nóvember síðastliðinn.

„Í dag beinast augu heimsbyggðarinnar að París,“ sagði Sigmundur sem kvað París vera vonarvita.

„Það er von mín að París muni leiða til samkomulags sem mun koma í veg fyrir geigvænlegar loftslagsbreytingar. Samkomualg sem mun uppfylla þá von að heimsbyggðin geti í raun sameinast í baráttu sinni við þennan mikla vanda.“

Ísland verði kennslustofa um loftslagsbreytingar

Hann sagði áhrif loftslagsbreytinga nú þegar sýnileg á Íslandi.  „Jöklar okkar hopa. Við höfum ákveðið að efla eftirlit með jöklunum okkar og gera niðurstöðurnar sem og jöklana aðgengilegri fyrir gesti og almenning. Ísland mun á sinn hátt verða kennslustofa um áhrif loftslagsbreytinga. Ef ekki verður gripið til aðgerða gætu jöklar á Íslandi horfið að mestu leyti innan 100 ára,“ sagði Sigmundur og bætti við að svipaða sögu væri að segja af öllu Norðurheimskautasvæðinu.

Eina leiðin til að sporna við þessari þróun væri að minnka útblástur koltvísýrings en í þeim efnum hefðu Íslendingar náð miklum árangri.  „Við fáum nær 100% allrar orku til rafmagnsframleiðslu og húshitunar úr endurnýjanlegum orkugjöfum sem er stórt skref í átt að kolefnahlutlausu hagkerfi. En við verðum að gera meira,“ sagði Sigmundur. Því næst reifaði hann sóknaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

Íslendingar styðji metnaðarfullt Parísarsamkomulag

Sigmundur sagði Íslendinga vilja setja gott fordæmi heimafyrir en um leið að stuðla að grænni framtíð á alþjóðavísu. „Við erum nú vonandi aðeins örfáum dögum frá því að ná sögulegum áfanga. Loftslagssamningi sem mun taka til nær alls útblásturs í heiminum sem og veita aðstoð við aðlögun og grænan vöxt í þróunarlöndum. Kolefnisjöfnun hagkerfa okkar er flókið og viðamikið verkefni en við verðum að nálgast það með jákvæðu, lausnarmiðuðu hugarfari. Markmið okkar í seilingarfjarlægð. Ísland styður metnaðarfullt Parísarsamkomulag sem mun halda okkur innan 2 gráðu markmiðsins,“ segir Sigmundur sem segir Íslendinga ætla að gera sitt í átt að kolefnasnauðri framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×