Framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins í ár, Fyrsta moskan í Feneyjum eftir svissnesk-íslenska listamanninn Cristoph Büchel, verður ekki sett upp hér á landi nú þegar tvíæringnum er lokið, líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Þetta kom fram í viðtali við Björgu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar (KÍM), í Kastljósi á RÚV í kvöld.
Listaverkið olli miklu fjaðrafoki, bæði í Feneyjum og hér heima fyrir. Verkið fólst í uppsettningu íslamskrar mosku í fornfrægri kaþólskri kirkju frá tíundu öld. Verkinu var lokað af lögreglunni í Feneyjum sem taldi moskuna mögulega „ógn við öryggi“ borgarbúa.
Þrátt fyrir málaferli KÍM tókst ekki að láta opna moskuna á ný og fékk framlag Íslands þannig aðeins að njóta sín í tvær vikur af þeim sjö mánuðum sem listahátíðin stóð yfir. Björg segir að ekki standi til að krefjast skaðabóta vegna aðgerða lögreglu.