Erlent

Segir árásir í Sýrlandi vera hagsmunaatriði fyrir Breta

Samúel Karl Ólason skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/EPA

„Við eigum ekki að vera sátt við að útvista öryggi Bretlands til bandamanna okkar.“ Þetta sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, á þingi þar í landi í dag. Þar var til umræðu tillaga ríkisstjórnarinnar um að Bretar myndu hefja loftárásir gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi.

Bretar gera þegar loftárásir gegn ISIS í Írak.

Cameron sagði ótækt að Bretar myndu ekki standa með bandamönnum sínum Frökkum. Hann sagði einnig að ekki væri hætta á að loftárásir í Sýrlandi myndu gera breska ríkisborgara að skotmörkum ISIS þar sem þeir væru það nú þegar.

Samkvæmt frétt BBC sagði Cameron að ekki kæmi til greina að senda breska hermenn til Sýrlands.

Auk þess tók forsætisráðherrann fram að hugsanlegar aðgerðir Breta myndu ekki beinast gegn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, heldur eingöngu ISIS. Árið 2013 hafnaði þingið beiðni ríkisstjórnarinnar um að gera beinar árásir á sveitir Assad.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði að málið snerist um hvort að það að Bretar myndu hefja árásir í Sýrlandi myndi bæta öryggi ríkisborgara Bretlands til framtíðar. Einnig sneri málið að því hvort að frekari loftárásir myndi veikja eða í raun styrkja ISIS.

Hann sagði engan vafa um að ISIS væri ógn við allan heiminn, en vildi fá það skýrt fram að Bretar myndu ekki hefja landhernað gegn ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×