Körfubolti

Russell Westbrook þarf að sjá um þetta næstu daga | Durant aftur meiddur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Russell Westbrook.
Kevin Durant og Russell Westbrook. Vísir/Getty
Kevin Durant verður ekki með Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í körfubolta á næstunni eftir að hann meiddist í heimkomunni til Washington en Durant var mikið meiddust á síðasta tímabili og nýtt tímabil byrjar því ekki gæfulega.

Durant er frá Washington og það hefur verið í umræðunni að hann semji við Washington Wizards þegar samningur hans rennur út í sumar. Það voru þó meiðsli kappans sem eignuðu sér fyrirsagnirnar eftir leikinn.

Durant var frábær í fyrri hálfleiknum eða þangað til hann meiddist aftan í læri sem þýddi að hann var ekkert með eftir hlé. Durant meiddist þegar hann keyrði að körfunni og lenti illa.

Nú er komið í ljós að Durant missir að minnsta kosti af sjö til tíu vikum vegna tognunar aftan í vinstra læri.

Kevin Durant var með 28,1 stig, 7,3 fráköst og 3,0 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu átta leikjum og það munar því mikið um hann fyrir lið Oklahoma City Thunder.

Durant spilaði aðeins 27 af 82 leikjum á síðasta tímabili og þá var það mikið á herðum Russell Westbrook að leiða Thunder-liðið sem Westbrook gerði með glans.

Westbrook var með 30,7 stig, 9,1 frákast og 7,7 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum án Kevin Durant á síðust leiktíð.

Russell Westbrook þarf því aftur að sjá um þetta í næstu leikjum en hann svaraði strax kallinu á móti Washington Wizards þar sem hann var með þrefalda tvennu, skoraði 22 stig, tók 11 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.

Thunder-liðið spilar fimm leiki á næstu dögum eða leiki á móti 76ers, Celtics, Grizzlies, Pelicans og Knicks. Það má búast við að þessi rúma vika gæti orðið sýning hjá Westbrook eins og var þegar hann fór á kostum í forföllum Durant í fyrra.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×