Handbolti

Gamlar hetjur Kiel snúa heim

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Faxi í leik með Kiel fyrir 13 árum síðan.
Faxi í leik með Kiel fyrir 13 árum síðan. vísir/getty
Leikur Kiel og PSG í Meistaradeildinni í dag verður sérstakur fyrir nokkra leikmenn PSG sem og þjálfara liðsins.

Nikola Karabatic, Daniel Narcisse og Thierry Omeyer léku allir með Kiel og þjálfari PSG, Noka Serdarusic, var þjálfari Kiel í 15 ár áður en Alfreð Gíslason tók við af honum. Aðstoðarmaður Serdarusic, Staffan „Faxi" Olsson, var síðan leikmaður Kiel frá 1996 til 2003.

„Mín sjö bestu ár í boltanum voru með Kiel þannig að þessi leikur verður klárlega sérstakur," segir Olsson.

„Kiel hefur alltaf átt sérstakan sess í hjarta mínu. Ég verð þó að ýta þeim tilfinningum til hliðar í 60 mínútur þegar ég er þjálfari hjá PSG."

Olsson er landsliðsþjálfari Svía og samhliða því er hann aðstoðarþjálfari hjá PSG. Hann segir þetta fara ágætlega saman og hann nýtur þess að vinna fyrir franska félagið.

„Þetta er langtímaverkefni og það er rétt að byrja. Það er mjög gaman að fá að taka þátt í þessu. Ég efast ekki um að við getum náð árangri," segir Olsson og það er líka pressa á að ná árangri enda er þetta lið PSG það dýrasta í sögu handboltans.

PSG er í efsta sæti A-riðils Meistaradeildarinnar ásamt Flensburg með tíu stig en Kiel er í fjórða sæti með átta stig.

Leikurinn hefst klukkan 17.30 í dag og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×