Handbolti

Hetjuleg barátta Kiel dugði ekki til

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rune Dahmke sækir að vörn PSG í kvöld.
Rune Dahmke sækir að vörn PSG í kvöld. Vísir/AFP
PSG er enn á toppi A-riðils Meistaradeildar Evrópu eftir sigur á Kiel í frábærum leik í Þýskalandi, 30-26.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hófu leikinn af krafti og komust í 3-1 forystu. En þá tók PSG leikinn yfir. Thierry Omeyer, fyrrum markvörður Kiel, lokaði markinu og Frakkarnir skoruðu næstu sjö mörkin í leiknum.

PSG hélt undirtökunum eftir það og leiddi með sex marka mun í hálfleik, 16-10.

Heimamenn voru þó ekki dauðir úr öllum æðum og komu sér inn í leikinn með mikilli baráttu og góðri markvörslu Niklas Landin í markinu.

Kiel minnkaði muninn í eitt mark, 24-23, en PSG skipti þá um gír og seig aftur fram úr, jafnt og þétt.

Daniel Narcisse var markahæstur hjá PSG með sex mörk en Marko Vujin skoraði fimm fyrir Kiel. Markverðir liðanna voru einnig í stórum hlutverkum í kvöld. Róbert Gunnarsson kom ekki við sögu hjá PSG.

PSG er með tólf stig á toppi riðilsins en Kiel er með átta stig í fjórða sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×