Körfubolti

Curry með 53 stig í sigri Golden State | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Curry var óstöðvandi í nótt.
Curry var óstöðvandi í nótt. vísir/getty
Stephen Curry héldu engin bönd þegar Golden State Warriors vann 14 stiga sigur, 134-120, á New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í nótt.

Curry skoraði 53 stig í leiknum, þar af komu 28 þeirra í 3. leikhluta. Hann hefur aldrei gert jafnmörg stig í einum leikhluta á ferlinum.

Curry hitti úr 17 af 27 skotum sínum utan af velli en átta af 14 þriggja stiga skotum hans rötuðu rétta leið. Curry ekki sá eini sem var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna en meistararnir voru með 56,7% skotnýtingu í þristum í leiknum.

Anthony Davis var atkvæðamestur hjá New Orleans með 26 stig og 15 fráköst en liðið hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í vetur.

Los Angeles Clippers hefur unnið alla þrjá leiki sína en í nótt bar liðið sigurorð af Sacramento Kings, 114-109. Þetta var 18. sigur Clippers á Sacramento í síðustu 21 leik liðanna.

Blake Griffin átti flottan leik í liði Clippers; skoraði 37 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. J.J. Redick kom næstur með 23 stig og þá áttu þeir Chris Paul og DeAndre Jordan fínan leik. Paul var með 17 stig og 11 stoðsendingar og Jordan skoraði 15 stig og reif niður 18 fráköst.

Rajon Rondo var atkvæðamestur í liði Sacramento með 21 stig, fimm fráköst og átta stoðsendingar.

Carmelo Anthony fór fyrir liði New York Knicks sem vann sjö stiga sigur, 117-110, á Washington Wizards í höfuðborginni.

Anthony skoraði 37 stig en hann hitti úr 11 af 18 skotum sínum utan af velli í nótt. Hjá Washington voru bakverðirnir John Wall og Bradley Beal í aðalhlutverkum. Wall skoraði 26 stig og Beal 25.

Úrslitin í nótt:

New Orleans 120-134 Golden State

LA Clippers 114-109 Sacramento

Washington 110-117 NY Knicks

Indiana 76-97 Utah

Memphis 101-91 Brooklyn

Portland 90-101 Phoenix

Curry átti magnaðan leik Griffin fór fyrir Clippers-liðinu Flottustu tilþrif næturinnar
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×