Handbolti

Ljónin með fullt hús stiga | Bergischer í vandræðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander skoraði fjögur mörk í kvöld.
Alexander skoraði fjögur mörk í kvöld. vísir/epa
Alexander Petersson skoraði fjögur mörk þegar Rhein-Neckar Löwen vann eins marks sigur, 28-29, á Hamburg á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Ljónin hafa unnið alla 11 leiki sína í deildinni og stefna hraðbyri að þýska meistaratitlinum.

Leikurinn í kvöld var lengst af hnífjafn en Löwen var jafnan fyrri til að skora í seinni hálfleik.

Þegar rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka var munurinn þrjú mörk, 24-27, en Hamburg gafst ekki upp og Adrian Pfahl jafnaði metin í 28-28 þegar 18 sekúndur voru eftir. Nicolaj Jacobsen, þjálfari Löwen, tók í kjölfarið leikhlé og að því loknu skoraði Andy Schmid sigurmarkið þegar þrjár sekúndur lifðu leiks.

Schmid og Uwe Gensheimer voru markahæstir í liði Löwen með sex mörk hvor. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað.

Bergischer, lið þeirra Björgvins Páls Gústavssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar, er í miklum vandræðum en liðið tapaði fimmta leiknum í röð þegar það sótti Melsungen heim í kvöld. Lokatölur 29-22, Melsungen í vil.

Arnór var markahæstur í liði Bergischer ásamt Maximilian Hermann en þeir skoruðu báðir sex mörk. Björgvin varði 10 skot í markinu.

Í B-deildinni vann Íslendingaliðið Aue fjögurra marka sigur, 29-25, á Springe á heimavelli.

Sigtryggur Rúnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Aue í kvöld og Bjarki Már Gunnarsson eitt. Sveinbjörn Pétursson ver fram liðsins en Árni Þór Sigtryggsson var ekki í leikmannahópi þess í kvöld. Rúnar Sigtryggsson er þjálfari Aue.

Annað Íslendingalið, Emsdetten, lá fyrir 1893 Neuhausen á útivelli, 36-32.

Oddur Gretarsson fór hamförum í liði Emsdetten og skoraði 13 mörk. Anton Rúnarsson og Ernie Hrafn Arnarson skoruðu tvö mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×