Körfubolti

Tók baksýnisspegilinn úr bílnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Butler ásamt Derrick Rose, félaga sínum.
Butler ásamt Derrick Rose, félaga sínum. vísir/getty
Jimmy Butler, leikmaður Chicago Bulls, ætlar aldrei að líta til baka í lífinu og staðfesti það með táknrænni aðgerð.

Hann einfaldlega tók baksýnisspegilinn úr bílnum sínum svo hann þurfi ekki að líta til baka. Lögreglan er líklega ekki ánægð með það en hann hefur þó hliðarspeglana.

Butler átti frábæra leiktíð í fyrra. Skoraði 20 stig að meðaltali í leik og komst í Stjörnuleik NBA-deildarinnar. Í kjölfarið fékk hann risasamning við Bulls sem mun færa honum tæpa 12 milljarða króna í laun á næstu fimm árum.

Butler tók mikla áhættu fyrir tímabilið í fyrra er hann hafnaði samningstilboði upp á 5 milljarða króna. Hann taldi sig geta gert betur og tímabilið í fyrra fitar því bankabókina hans um auka 7 milljarða. Þetta var áhætta sem borgaði sig.

Leikmaðurinn átti erfiða æsku. Ólst upp án föður og móðir hans rak hann út af heimilinu er hann var á unglingsaldri. Butler náði að rífa sig upp, koma sér í skóla ,þökk sé körfuboltanum, og er nú á toppnum.

„Ég vil aldrei líta til baka á þessa tíma og hugsa um þá. Ég horfi bara fram á veginn. Þess vegna reif ég spegilinn úr bílnum," sagði Butler.

„Ég hef skilið fortíðina eftir. Er ekki í fýlu út í neinn. Ég má ekki festast í fortíðarsvekkelsi og er í sambandi við foreldra mína í dag."

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×