Handbolti

Atli Ævar nýtti öll skotin sín á móti gömlu félögunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Ævar Ingólfsson.
Atli Ævar Ingólfsson. Mynd/Heimasíða Eskilstuna Guif
Atli Ævar Ingólfsson átti mjög góðan leik á móti sínum gömlu félögum í Eskilstuna Guif og á sínum gamla heimavelli þegar Sävehof vann flottan útisigur í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Atli Ævar Ingólfsson lék með liði Eskilstuna Guif á síðustu leiktíð og þetta var fyrsti leikur hans á móti sínum gömlu félögum.

Kristján Andrésson þjálfari Eskilstuna Guif og fyrrum liðsfélagar Atla Ævars sáu hann fara á kostum í leiknum í kvöld. Sävehof vann leikinn á endanum með tveggja marka mun, 29-27.

Atli Ævar skoraði fimm mörk úr fimm skotum í leiknum og var einn af þremur markahæstu leikmönnum Sävehof í leiknum. Sävehof hefur byrjað tímabilið vel en liðið er með sex sigra í fyrstu sjö leikjum sínum.

Leikmenn Eskilstuna Guif byrjuðu af krafti og komust í 7-3 og 9-5 í upphafi leiks. Sävehof vann sig inn í leikinn og Atli Ævar minnka muninn í eitt mark, 15-14, rétt fyrir hálfleik.

Guif-menn voru áfram með frumkvæðið í byrjun seinni hálfleiks en góður sprettur gestanna um miðjan hálfleikinn gerði gæfumuninn.

Sävehof skoraði fimm mörk í röð á rúmum sjö mínútum og breytti stöðunni úr 20-19 fyrir Guif í 24-20 fyrir Sävehof. Þá voru fimmtán mínútur til leiksloka.

Sävehof-liðið var með frumkvæðið þar sem eftir lifði leiks og vann mikilvægan útisigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×