Handbolti

Ljónin töpuðu óvænt í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk í kvöld.
Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk í kvöld. Vísir/Getty
Sænska liðið Kristianstad vann þriggja marka sigur á Rhein-Neckar Löwen, 32-29, í Meistaradeildinni í handbolta í kvöld.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen í leiknum og var þriðji markahæsti maður liðsins.

Kristianstad var búið að tapa fjórum Meistaradeildarleikjum í röð fyrir leik kvöldsins eða öllum leikjum sínum frá því að liðið vann danska liðið KIF Kolding í fyrsta leik.

Þetta var aðeins annað tap Rhein-Neckar Löwen í Meistaradeildinni en liðið var í þriðja sæti riðilsins fyrir þennan leik, fjórum sætum og fimm stigum ofar en sænska liðið.

Stefán Rafn Sigurmannsson datt út úr landsliðshópnum á dögunum en minnti aðeins á sig með því að skora fjögur mörk úr fimm skotum. Stefán Rafn skoraði eitt mark í fyrri hálfleik og þrjú í þeim síðari.

Alexander Petersson skoraði 1 mark úr 4 skotum en markahæstur hjá Ljónunum var Svisslendingurinn Andy Schmid með átta mörk og þá skoraði Svíinn Kim Ekdahl Du Rietz 6 mörk.  

Kristianstad lagði grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik sem liðið vann 20-12. Ungverjinn átti Iman Jamali átti mjög flottan leik og skoraði 8 mörk úr 9 skotum.

Kristianstad breytti stöðunni úr 2-2 í 11-3 í upphafi leiks og var með mikla yfirburði í fyrri hálfleiknum eftir það.

Kristianstad var síðan tíu mörkum yfir, 27-17, þegar tíu mínútum voru liðnar af seinni hálfleiknum en Ljónin náðu að minnka muninn niður í tvö mörk í blálokin áður en heimamenn kláruðu leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×