Handbolti

Róbert Aron með einu íslensku mörkin í sigri Mors-Thy

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Aron Hostert.
Róbert Aron Hostert. Vísir/Vilhelm
Mors-Thy HB tók með sér bæði stigin frá Skive í kvöld eftir þriggja marka útisigur í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

 

Mors-Thy HB vann leikinn 26-23 en Skive situr í botnsæti deildarinnar og er búið að tapa níu fyrstu leikjum tímabilsins.

Róbert Aron Hostert var eini íslenski leikmaður Mors-Thy sem komst á blað í kvöld en hann skoraði þrjú mörk sem komu öll á mikilvægum tíma á lokakafla leiksins.

Róbert Aron skoraði mörkin sín þrjú úr fimm skotum en hann átti einnig eina stoðsendingu á félaga sinn. Róbert Aron nýtti þrjú fyrstu skotin sín.

Agnar Smári Jónsson og Guðmundur Árni Ólafsson náðu ekki að komast á blað en Agnar Smári klikkaði á báðum skotum sínum í leiknum.

Mors-Thy HB vann þarna aðeins sinn þriðja sigur á tímabilinu og þann fyrsta á útivelli á leiktíðinni.

Staðan var 13-13 í hálfleik og 20-20 þegar seinni hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður.

Róbert Aron fór þá í gang og skoraði þrjú mörk í röð og Mors-Thy komst fjórum mörkum yfir, 24-20. Mors-Thy var með góð tök á leiknum eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×