Körfubolti

Svona stoppaði sá besti á EM þann besta í heimi | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol fagnar varða skotinu sínu í nótt.
Pau Gasol fagnar varða skotinu sínu í nótt. Vísir/EPA
Frábær vörn spænska miðherjans Pau Gasol tryggði Chicago Bulls sigur á Cleveland Cavaliers þegar NBA-deildin í körfubolta fór af stað í nótt.

Cleveland Cavaliers átti boltann þegar 10 sekúndur voru eftir og staðan var 97-95 fyrir heimamenn í Chicago Bulls.

LeBron James fékk að sjálfsögðu boltann og keyrði upp að körfunni en þar beið Gasol og varði skottilraun James þegar 3,6 sekúndur voru eftir af leiknum.

Cleveland Cavaliers fékk innkast en kom boltanum ekki aftur á LeBron James þökk sé góðri vörn frá Jimmy Butler sem stal sendingunni.  

Pau Gasol sem var kosinn besti leikmaður EM í haust þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar var rólegur í leiknum og var bara með 2 stig, 2 fráköst og enga stoðsendingu.

Gasol varði aftur á móti sex skot frá leikmönnum Cleveland og var því í fyrsta sinn á ferlinum með fleiri varin skot en stig og fráköst samanlagt.

LeBron James, sem margir álíta vera besta leikmann í heimi, hefur oftar en ekki klárað færi eins og það sem hann fékk á lokasekúndunum í nótt en hann fann engar leiðir framhjá hinum reynslumikla Pau Gasol.

LeBron James endaði leikinn með 25 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar en hann hitti úr 12 af 22 skotum sínum.

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá því þegar sá besti á Evrópumótinu stoppaði þann besta í heimi.



Vísir/EPA
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×