Handbolti

Þórir missir lykilmann í meiðsli stuttu fyrir HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk.
Nora Mörk. Vísir/Getty
Það styttist óðum í HM kvenna í handbolta sem fer fram í Danmörku frá 5. til 20. desember. Þórir Hergeirsson fékk ekki góðar fréttir í gær þegar einn af bestu leikmönnum norska kvennalandsliðsins í handbolta, Nora Mörk, meiddist í leik með Larvik.

Larvik vann Vipers Kristiansand 30-20 en Nora Mörk meiddist illa á vinstri ökkla í leiknum. Norðmenn bíða nú og vona að meiðslin séu ekki eins alvarlegt og óttast er.

„Ég hélt að þetta væri hnéð þaðan sem ég stóð. Það var því léttir að þetta var bara ökklinn því slík meiðsli eru sjaldan eins alvarleg," sagði Gro Hammerseng-Edin, liðsfélagi Noru Mörk við Eurosport eftir leikinn.

Nora Mörk fór á kostum með norska landsliðinu fyrir ári síðan þegar liðið tryggði sér Evrópumeistaratitilinn í Ungverjalandi. Það var fjórði stóri titilinn sem norska kvennalandsliðið vinnur undir stjórn Þóris.

Nora Mörk var markahæsti leikmaður norska liðsins í keppninni með 41 mark í 8 leikjum auk þess að hún var valin í úrvalslið mótsins sem besta hægri skyttan.

Nora var líka sú sem gaf flestar stoðsendingar á Evrópumótinu og það var bara hin magnaða Isabelle Gulldén, markadrottning EM 2014, sem átti þátt í fleiri mörkum á mótinu.

Síðan að Þórir tók við norska landsliðinu árinu 2009 hefur hann sjaldnast geta stillt upp sínu sterkasta liði og á sama tíma hefur liðið gengið í gegnum kynslóðarskipti. Það gæti því reynt enn á ný á Selfyssinginn á lokaundirbúningnum fyrir HM í Danmörku.


Tengdar fréttir

Þórir Hergeirsson tilnefndur sem þjálfari ársins

Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta sem varð Evrópumeistari á dögunum er einn fimm þjálfara sem er tilnefndur sem þjálfari ársins 2014 í kvennahandbolta.

Metáhorf á kvennahandbolta

Kvennahandbolti virðist vera í mikilli sókn í Evrópu enda var sett glæsilegt áhorfsmet á síðasta EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×