Handbolti

Ljónin slógu refina úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander fagnar með Patrick Grötzky.
Alexander fagnar með Patrick Grötzky.
Rhein-Neckar Löwen hafði betur gegn Füchse Berlin, 29-23, í leik liðanna í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í kvöld. Füchse Berlin er ríkjandi bikarmeistari í Þýskalandi en mun ekki verja titilinn í ár.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir Löwen í leiknum En Bjarki Már Elísson eitt fyrir Füchse Berlin. Erlingur Richardsson er þjálfari Berlínarliðsins.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en Löwen náði forystunni undir lok fyrri hálfleiks og hélt henni út allan seinni hálfleikinn.

Magdeburg er komið áfram í fjórðungsúrslitin eftir sigur á Lübbecke, 39-34, en Geir Sveinsson er þjálfari Magdeburg sem var með fimm marka forystu í hálfleik.

Rúnar Sigtrygsson og lið hans, Aue, er úr leik eftir tap fyrir Minden á heimavelli, 28-22. Árni Þór Sigtryggsson, bróðir Rúnars, skoraði fjögur mörk fyrir Aue og Sigtryggur Daði, sonur Rúnars, þrjú mörk.

Bjarki Már Gunnarsson spilaði í vörn Aue í leiknum en Sveinbjörn Pétursson markvörður kom lítið við sögu.

Rúnar Kárason skoraði þrjú mörk fyrir Hannover og Ólafur Guðmundsson eitt er liðið tapaði fyrir Melsungen, 28-22.

Þá komst Bergischer áfram eftir sigur á Nordhorn, 24-19. Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer í leiknum.

Uppfært 21.15: Kiel, lið Alfreðs Gíslasonar, er komið áfram eftir sigur á Coburg, 27-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×