
Tveir frambjóðenda flokksins, Bernie Sanders og Martin O'Malley, hafa mikið gagnrýnt hve fáar kappræður verða haldnar milli frambjóðenda, sex talsins, og benda á að átta árum fyrr, síðast þegar halda þurfti forkosningar, hafi þær verið 26.
Þá hafa kjósendur mótmælt fyrirkomulaginu af tveimur ástæðum.
Annars vegar munu frambjóðendur Repúblikanaflokksins fá fleiri kappræður til að kynna stefnumál sín, ellefu talsins, þar af tvennar sem þegar hafa farið fram.
Hins vegar hefur því verið haldið fram, einna helst af stuðningsmönnum annarra frambjóðenda en Hillary Clinton, að færri kappræður þýði færri tækifæri fyrir aðra frambjóðendur til að kynna stefnu sína. Þar af leiðandi er sagt auðveldara fyrir Clinton að verja forskot sitt.
Formaðurinn stendur á sínu
Engan bilbug er að sjá á Debbie Wasserman Schultz, formanni landssambandsins. Sem formaður hefur Schultz lokaorðið í ákvörðunum sem snúa að kappræðunum. Þrátt fyrir stöðug mótmæli flokksmanna og annarra í flokksforystunni virðist áætlunin ekki í þann mund að breytast.
Samkvæmt reglum flokksins mega frambjóðendur ekki taka þátt í öðrum kappræðum en þeim sem landssambandið sér um. Ef frambjóðandi brýtur þá reglu fær hann ekki að taka þátt í stóru, opinberu kappræðunum.

Hillary Clinton mælist í aðdraganda kappræðnanna með mest fylgi á landsvísu, 42 prósent, en Sanders mælist næsthæstur með 25 prósent samkvæmt meðaltalsútreikningum Real Clear Politics.
Þó er einkar mjótt á munum í fyrsta ríkinu sem kýs í forvali demókrata, Iowa. Meðaltal kannana sýna Clinton með 37 prósenta fylgi en Sanders með 31 prósent. Sú nýlega könnun með stærsta úrtakið sýnir Sanders þó með 43 prósenta fylgi en Hillary með 43 prósent.
Næsta fylgi sem kýs er New Hampshire, þar hefur Sanders afgerandi forystu. Hann mælist með 39 prósenta fylgi en Clinton 30 prósent.
Kappræður í nótt
Fyrstu kappræður frambjóðenda Demókrataflokksins fara fram aðfaranótt miðvikudags í spilavítaborginni Las Vegas í Nevadaríki. Kappræðurnar hefjast klukkan sex um kvöld að staðartíma en tvö um nótt hér á landi.
Auk Sanders og Clinton munu þeir Lincoln Chafee, Martin O'Malley og Jim Webb standa á sviðinu og rökræða. Enginn þeirra þriggja mælist yfir einu prósenti í skoðanakönnunum á landsvísu.