Handbolti

Agnar Smári í stuði í tapleik á heimavelli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Agnar Smári er oftast óhræddur við að skjóta.
Agnar Smári er oftast óhræddur við að skjóta. vísir/ernir
Íslendingaliðið Mors-Thy tapaði á heimavelli gegn Bjerringbro-Silkeborg, 29-26, í áttundu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld.

Bjerringbro, sem var þremur stigum fyrir ofan Mors-Thy fyrir leikinn, var fimm mörkum yfir í hálfleik, 17-12.

Agnar Smári Jónsson, sem varð bikarmeistari með ÍBV fyrr á þessu ári, fór mikinn fyrir heimamenn og skoraði sjö mörk úr tíu skotum. Hann var markahæstur í sínu liði.

Agnar Smári fór mikinn undir lokin þegar hann reyndi að berja út stig fyrir sína menn, en hann skoraði fjögur af fimm síðustu mörkum liðsins. Það dugði þó ekki til í kvld.

Hinir Íslendingarnir í liðinu; Robert Aron Hostert og Guðmundur Árni Ólafsson, skoruðu ekki mark og brenndu báðir af tveimur skotum.

Mors-Thy er með sex stig eftir átta leiki í ellefta sæti deildarinnar fjórtán liðum, en Bjerringbro lyfti sér upp í þriðja sætið með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×