Fótbolti

Fangelsisdómur vofir yfir Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Lionel Messi og faðir hans þurfa að öllum líkindum að svara til saka fyrir dómi vegna meintra skattalagabrota.

Í gær var greint frá því að ákæra Messi yrði látin niður falla en dómari í málinu hefur hafnað þeirri beiðni saksóknara. Messi og faðir hans eru sakaðir um að hafa svikist undan skatti um því sem nemur fjórum milljónum evra, jafnvirði 566 milljónum króna.

Feðgarnir neita sök en lögmenn skattayfirvalda á Spáni fara fram á 22 mánaða dóm yfir þeim báðum. Jorge Messi, faðir Lionel, er sakaður um að hafa svikist undan því að greiða skatt af tekjum sonar síns með því að nota skattaskjól í Belize og Úrúgvæ á árunum 2007 til 2009.

Lögmenn Messi halda því fram að leikmaðurinn hafi aldrei lesið samninga sína sjálfur og hafi því ekki haft neina vitneskju um ólöglegt athæfi. Dómarinn heldur því hins vegar fram að það sé rökstuddur grunur um að feðganir hafi báðir haft rangt við gagnvart lögum.

Messi er einn ríkasti íþróttamaður heims og hefur fjórum sinnum verið valinn besti knattspyrnumaður heims. Hann er 28 ára gamall. Ekki hefur verið ákveðið hvenær verði réttað í málinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×