Körfubolti

Meiðslamartröð Rose heldur áfram: Enn ein aðgerðin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose.
Derrick Rose. Vísir/Getty
Derrick Rose, leikstjórnandi Chicago Bulls, er enn á ný á leið á skurðarborðið eftir að hafa meiðst á andliti á fyrsta degi undirbúningstímabilsins. Rose hefur verið meira eða minna meiddur síðan að hann var kosinn besti leikmaður deildarinnar 2010-11.

Rose fékk olnboga í andlitið á æfingunni (líklega frá Taj Gibson) og við það kom kom brot í vinstri augnbotninn. Rose fer í aðgerð í dag vegna meiðslanna. Það er þó ekki búist við að hann verði jafnlengi frá og vegna meiðsla síðustu ára.

Blaðamenn voru viðstaddir æfinguna en liðsfélagar og þjálfari Chicago Bulls gerðu fyrst lítið úr meiðslunum. Seinna kom síðan í ljós að komið var að næsta kafla í meiðslamartraðarsögu Derrick Rose. ESPN sagði frá meiðslunum í gær.

Rose sleit krossband í úrslitakeppninni 2012 en aðeins nokkrum mánuðum fyrr hafði hann skrifað undir fimm ára og 94,8 milljón dollara samning við Chicago Bulls.

Rose missti af öllu 2012-13 tímabilinu og reif síðan liðþófa í nóvember á tímabilinu á eftir. Það þýddi að hann spilaði ekki meira á 2013-14 tímabilinu.

Rose meiddist einnig á liðþófa í febrúar síðastliðnum og missti þess vegna af 31 leik á síðasta tímabili. Hann hefur aðeins spilað samtals hundrað deildarleiki síðan í byrjun 2011-12 tímabilsins.

Derrick Rose er nú 26 ára og hann trúir því sjálfur að hann sé einn af bestu leikmönnum deildarinnar ef marka má viðtal við hann á dögunum. Það er erfitt samt að halda sér í hópi þeirra bestu þegar þú ert alltaf meiddur.  Hér fyrir neðan má sjá samantekt ESPN á meiðslasögu Rose.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×