Enski boltinn

Kristinn: Framtíð Bjarna er hjá KR

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR.
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR. Vísir/Stefán
„Ég hef ekki upplifað það þannig þótt að spilamennskan undanfarnar vikur hafi ekki verið nægilega góð,“ sagði Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, aðspurður hvort það væri allt í upplausn í herbúðum KR.

„Það er eðlilegt að menn fari að velta steinum en við vinnum eftir okkar bestu getu, bæði þeir sem starfa í kringum klúbbinn, þjálfarar og leikmenn og við ætlum okkur að tryggja okkur Evrópusæti.“

Staðan leit vel út fyrir KR þann 19. júlí síðastliðinn þegar KR skaust í toppsæti Pepsi-deildarinnar með 3-1 sigri á FH í Kaplakrika.

„Þetta leit vel út um Verslunarmannahelgina, nýbúnir að vinna FH og gerðum jafntefli við Breiðablik ásamt því að bóka sæti í úrslitum bikarsins. Eftir það hefur þetta ekki farið eins og við vildum, við munum reyna að finna og vinna úr því hvað betur má fara.“

Kristinn kunni ekki skýringu á slöku gengi KR undanfarnar vikur en KR hefur aðeins nælt í 10 stig í síðustu 8 leikjum.

„Það þarf að skoða það og reyna að vinna úr því hvað fór úrskeiðis í sameiningu, það þýðir ekkert að horfa til baka á það sem búið er. Það eru tveir leikir eftir og við viljum tryggja Evrópusætið sjálfir og við gerum kröfu til þess.“

Mikið hefur verið rætt um hvert framhaldið verði hjá ýmsum starfsmönnum og leikmönnum liðsins.

„Eins og eftir öll tímabil þá munum við sitjast niður strax eftir tímabilið og sjá hvert það leiðir okkur. Það er ljóst að bæði þjálfarar og leikmenn þurfa að finna út úr því hvernig á að undirbúa liðið betur fyrir næsta tímabil og sú vinna hefst 5. október.“

Bjarni Guðjónsson er á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari KR eftir að hafa verið fyrirliði liðsins um árabil.

„Framtíð hans er í KR eins og staðan er í dag. Það er einhver umræða sem er utan KR um framtíð hans og hún er skiljanleg í ljósi þess hvar félagið stendur. Menn tala og spekúlera mikið um KR og það er partur af þessu en við getum ekki látið það fara í taugarnar á okkur,“ sagði Kristinn sem gerir ráð fyrir að Bjarni stýri liðinu á næsta tímabili.

„Við vinnum ekki út frá neinu öðru en að Bjarni og hans menn verði hjá okkur á næsta tímabili. Á meðan þetta er svona er ekki hægt að gera neitt annað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×