Þættirnir eru að erlendri fyrirmynd, en í Bandaríkjunum nefnast þeir Hollwood Game Night. Þeir hafa notið mikilla vinsælda vestan hafs; fengið fína dóma og mikið áhorf. Leikonan Jane Lynch, sem er líklega þekktust fyrir leik sinn í Glee, er þáttarstjórnandi í Bandaríkjunum. „Eins og nafnið gefur til kynna, þá verður þetta bara eins og spilakvöld. Vinir að hittast og fara í leiki,“ útskýrir Pétur Jóhann enn fremur. Í þáttunum keppa tvö fjögurra manna lið í alls kyns þrautum. Þrír þekktir einstaklingar verða í hvoru liði og svo einn sem er valinn af handahófi.

„Það er rosalega gaman að fá að taka þátt í þeirri breytingu sem er að eiga sér stað á þættinum.“ Eitt af innslögum Péturs fór á mikið flug á samfélagsmiðlunum í vikunni, þegar hann kíkti á æfingu í sundknattleik. „Ég var bara eins og selur við hliðina á þessum gæjum, sem eru alveg í svaðalegu formi. Þetta er líklega það erfiðasta sem ég hef gert. Ég hef alltaf verið fínn sundmaður og mætti vel í sundtíma í skóla. En þetta var alveg rosalegt og dæmi um ögrandi hlut sem ég hef gaman af að gera.“
Hér að neðan má sjá atriði úr Hollywood Game Night:
Dæmi um þrautir í Spilakvöldi
Hjálparhöndin
Tveir liðsmenn annars liðsins reyna að fá hina tvo liðsfélaga sína til að giska á orð eða hugtök með látbragðsleik. Annar leikarinn er staðsettur fyrir aftan hinn og lætur hendur sínar fram fyrir. Þannig þurfa leikararnir að vinna saman í látbragðsleiknum; annar með búknum og höfðinu, hinn með höndunum. Þetta er vinsæll liður í þáttunum.
Fjögurra stafa orð
Bundið er fyrir augu allra leikmanna og fá þeir stóran staf úr plasti í hendurnar. Þáttastjórnandi spyr þá spurninga og er rétta svarið alltaf eitthvað fjögurra stafa orð. Leikmenn eiga að skiptast á stöfunum þannig að þeir stafi orðið rétt. Það getur verið mjög fyndið að sjá leikmenn reyna að finna rétta stafi án þess að sjá þá.
Poppuð spurningakeppni
Keppendur beggja liða raða sér við hringborð og í miðjunni er vél full af poppkorni. Vélin velur sjálfkrafa leikmann annars liðsins af handahófi og fær hann spurningu. Ef hann svarar henni rétt fær liðið hans stig. Ef ekki sprautar vélin poppkorni yfir hann. Skipst er á að spyrja leikmenn liðanna.