Viðskipti erlent

Vonast til að fá iPhone 6S til Íslands í október

Sæunn Gísladóttir skrifar
Nýr iPhone kynntur Nýjasti sími Apple hefur rokið út í forsölu.
Nýr iPhone kynntur Nýjasti sími Apple hefur rokið út í forsölu. Vísir/Getty
Nýir iPhone-símar, iPhone 6S og iPhone 6S plus voru kynntir þann 9. september síðastliðinn. Fyrstu símarnir verða seldir í Apple-búðum þann 25. september. Hörður Ágústsson, framkvæmdastjóri Macland, segir að símarnir muni væntanlega koma sama dag til allra söluaðila á Íslandi. Hörður telur mjög líklegt, þar sem símarnir komu í lok október síðustu tvö árin, að þeir komi á sama tíma nú í ár. „Ég býst fastlega við símanum öðrum hvorum megin við mánaðamótin október/nóvember,“ segir Hörður.

Hörður segist ekki vita hvað nýju iPhone-símarnir muni kosta, en telur líklegt að þeir verði á svipuðu verði og áður. Forsala á símanum hefur gengið mjög vel. iPhone 6S Plus er nærri því uppseldur og sala á iPhone 6S gengur einnig vel. Talið er að símarnir hafi yfir helgina slegið sölumet síðasta árs þegar 10 milljón eintök af iPhone 6 og 6 Plus voru pöntuð fyrstu helgina. Símarnir sem selst hafa í forsölu verða sendir úr verksmiðjum þann sama dag og síminn kemur í búðir vestan hafs en geta tekið allt að þrjár til fjórar vikur að skila sér til kaupenda. Því getur verið að Íslendingar geti keypt sér nýjan iPhone á sama tíma og Bandaríkjamenn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×