Strákarnir sigruðu Golíat Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 4. september 2015 07:00 Árangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hefur verið eftirtektarverður undanfarin ár og í gær fylgdist þjóðin andstutt með strákunum okkar vinna einhvern fræknasta sigur sem sögur fara af; gegn Hollendingum á heimavelli þeirra á ögurstundu. Eins og við Íslendingar eigum kyn til voru gerðar gríðarlegar kröfur til þessara ungu drengja um að standa sig fyrir hönd þjóðar sinnar í Hollandi. Væntingarnar minna einna helst á Eurovision-heilkennið sem dúkkar upp hér á landi einu sinni á ári. Leikurinn í gær var fyrirsjáanlega eitt það erfiðasta verkefni sem íslenskt landslið hefur staðið frammi fyrir. Staðan hefur þróast þannig að raunhæfir möguleikar eru fyrir okkar litlu eyþjóð að komast alla leiðina á stórmót, og skjóta þannig mun stærri þjóðfélögum, bæði þegar kemur að íbúafjölda og sögulegri knattspyrnugetu, ref fyrir rass. Meðal þeirra sem gátu staðið í vegi fyrir því að sá ævintýralegi og jafnvel óraunhæfi draumur rættist var hið ógnarsterka landslið Hollands, sem státar af leikmönnum sem spila margir hverjir í sterkustu deildum heims með sterkustu liðum heims. Alþjóðlegar stórstjörnur utan vallar sem innan. Íslenska liðið hafði fyrir leikinn þegar brotið blað með því að skipa efsta sæti síns riðils eftir sex leiki og vel að merkja aðeins fengið á sig þrjú mörk fyrir leikinn í gær. Sú staðreynd breyttist ekkert. Strákarnir hafa náð að heilla áhorfendur heima jafnt sem erlendis því eðlilega vekur það eftirtekt þegar 300 þúsund manna þjóð er í fremstu röð í knattspyrnu. Eftir sigurinn í gær er liðið eðli málsins samkvæmt enn í efsta sæti riðilsins en hefur allt í hendi sér til að komast á lokamót Evrópumeistaramótsins næsta sumar. Þrátt fyrir að Íslendingar eigi sér takmarkaða sögu íþróttaafreka á alþjóðavettvangi þá eru íþróttir mjög umfangsmiklar í íslensku samfélagi og snerta mörg svið þjóðlífsins hér á landi. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir menntamálaráðuneytið frá því í mars kemur fram að um 46% landsmanna eru félagar í íþróttafélagi innan ÍSÍ og fer hlutfallið upp í 60% þegar horft er til ungmenna. Íþróttir eru ein besta forvörn sem fyrirfinnst. Íþróttir byggja upp sjálfstraust, aga og andlegan þroska hjá börnum sem læra að bera virðingu fyrir andstæðingum sem nýtist á allri lífsleiðinni. Þær auka einnig líkur á að einstaklingar velji beinu brautina í lífinu. Sýnt hefur verið fram á jákvæð tengsl íþróttaiðkunar og námsárangurs sem og í öðru sem börnin taka sér fyrir hendur. Því má aldrei gleyma hversu gríðarlega mikilvægar fyrirmyndir íþróttafólkið okkar er, bæði þegar illa gengur og svo ekki sé talað um þegar eins stórkostlegum og óvæntum árangri eins og leit dagsins ljós í gær er náð. Með aðdáunarverðri elju, baráttu, skipulagi og gleði tókst Davíð að sigra Golíat – og það í annað sinn. Litla Ísland stendur með pálmann í höndunum. Hvernig sem leiðin á EM endar verður að óska strákunum okkar til hamingju með þennan glæsta árangur. Áfram Ísland! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið Aukið við sóun með einhverjum ráðum Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Hverjir eiga Ísland? Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael! Ólafur Ingólfsson Skoðun Kæru valkyrjur, hatrið sigraði líklega í þetta skiptið Arnar Laxdal Skoðun Stjórnmál sem virka og lýðræði sem kemst ekki fyrir í umslagi Þórður Snær Júlíusson Skoðun Flugnám - Fjórði hluti: Hlutverk Reykjavíkurflugvallar í flugnámi Matthías Arngrímsson Skoðun Ríkisstjórnin stóð af sér áhlaup sérhagsmuna Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Áform um að eyðileggja Ísland! Jóna Imsland Skoðun Ursula Von der Leyen styður stríðsglæpamenn - Ísland á ekki að þegja Helen Ólafsdóttir Skoðun Hvert er markmið fulltrúalýðræðis? Hlynur Orri Stefánsson,Vilhjálmur Árnason Skoðun
Árangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hefur verið eftirtektarverður undanfarin ár og í gær fylgdist þjóðin andstutt með strákunum okkar vinna einhvern fræknasta sigur sem sögur fara af; gegn Hollendingum á heimavelli þeirra á ögurstundu. Eins og við Íslendingar eigum kyn til voru gerðar gríðarlegar kröfur til þessara ungu drengja um að standa sig fyrir hönd þjóðar sinnar í Hollandi. Væntingarnar minna einna helst á Eurovision-heilkennið sem dúkkar upp hér á landi einu sinni á ári. Leikurinn í gær var fyrirsjáanlega eitt það erfiðasta verkefni sem íslenskt landslið hefur staðið frammi fyrir. Staðan hefur þróast þannig að raunhæfir möguleikar eru fyrir okkar litlu eyþjóð að komast alla leiðina á stórmót, og skjóta þannig mun stærri þjóðfélögum, bæði þegar kemur að íbúafjölda og sögulegri knattspyrnugetu, ref fyrir rass. Meðal þeirra sem gátu staðið í vegi fyrir því að sá ævintýralegi og jafnvel óraunhæfi draumur rættist var hið ógnarsterka landslið Hollands, sem státar af leikmönnum sem spila margir hverjir í sterkustu deildum heims með sterkustu liðum heims. Alþjóðlegar stórstjörnur utan vallar sem innan. Íslenska liðið hafði fyrir leikinn þegar brotið blað með því að skipa efsta sæti síns riðils eftir sex leiki og vel að merkja aðeins fengið á sig þrjú mörk fyrir leikinn í gær. Sú staðreynd breyttist ekkert. Strákarnir hafa náð að heilla áhorfendur heima jafnt sem erlendis því eðlilega vekur það eftirtekt þegar 300 þúsund manna þjóð er í fremstu röð í knattspyrnu. Eftir sigurinn í gær er liðið eðli málsins samkvæmt enn í efsta sæti riðilsins en hefur allt í hendi sér til að komast á lokamót Evrópumeistaramótsins næsta sumar. Þrátt fyrir að Íslendingar eigi sér takmarkaða sögu íþróttaafreka á alþjóðavettvangi þá eru íþróttir mjög umfangsmiklar í íslensku samfélagi og snerta mörg svið þjóðlífsins hér á landi. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir menntamálaráðuneytið frá því í mars kemur fram að um 46% landsmanna eru félagar í íþróttafélagi innan ÍSÍ og fer hlutfallið upp í 60% þegar horft er til ungmenna. Íþróttir eru ein besta forvörn sem fyrirfinnst. Íþróttir byggja upp sjálfstraust, aga og andlegan þroska hjá börnum sem læra að bera virðingu fyrir andstæðingum sem nýtist á allri lífsleiðinni. Þær auka einnig líkur á að einstaklingar velji beinu brautina í lífinu. Sýnt hefur verið fram á jákvæð tengsl íþróttaiðkunar og námsárangurs sem og í öðru sem börnin taka sér fyrir hendur. Því má aldrei gleyma hversu gríðarlega mikilvægar fyrirmyndir íþróttafólkið okkar er, bæði þegar illa gengur og svo ekki sé talað um þegar eins stórkostlegum og óvæntum árangri eins og leit dagsins ljós í gær er náð. Með aðdáunarverðri elju, baráttu, skipulagi og gleði tókst Davíð að sigra Golíat – og það í annað sinn. Litla Ísland stendur með pálmann í höndunum. Hvernig sem leiðin á EM endar verður að óska strákunum okkar til hamingju með þennan glæsta árangur. Áfram Ísland!