Fótbolti

Rooney með þrennu og Manchester United í Meistaradeildina á ný | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með sannfærandi hætti í kvöld eftir 4-0 sigur á belgíska liðinu Club Brugge í seinni leik liðanna í umspili.

Manchester United vann þar með 7-1 samanlagt og verður í pottinum í Mónakó á morgun þegar dregið verður í riðla í Meistaradeildinni.

Wayne Rooney opnaði markareikning sinn á tímabilinu með stæl en hann skoraði þrjú fyrstu mörk United-liðsins í leiknum. Þetta var fyrsta þrenna hans í Evrópuleik síðan á móti Fenerbahce árið 2004.

Wayne Rooney leyfði Javier Hernández að taka vítaspyrnu þegar Rooney gat innsiglað fernuna en Mexíkóbúinn rann í aðhlaupinu og skaut framhjá í vítinu.

Wayne Rooney skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 20. mínútu eftir að hafa fengið skemmtilega sendingu frá Memphis Depay og Rooney kom United síðan í 2-0 á 49. mínútu eftir sendingu frá Ander Herrera.

Sjö mínútum síðar skoraði Rooney þriðja markið sitt eftir sendingu frá Juan Mata og það liðu síðan ekki nema sjö mínútur þangað til að Ander Herrera skoraði fjórða markið.

Javier Hernández skaut framhjá úr vítaspyrnu á 81. mínútu og tókst því ekki eins og Wayne Rooney að opna markareikning sinn á þessu tímabili. Hernández  fékk annað dauðafæri í lokin en skaut þá yfir.

Það kom ekki að sök því sigur Manchester var mjög öruggur og liðið er nú komið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á nýjan leik.

Þrenna Wayne Rooney Ander Herrera kemur United í 4-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×