Sport

Kemst Aníta bakdyramegin inn á HM í Peking?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. Visir/EPA
Aníta Hinriksdóttir var aðeins fimmtán hundraðshlutum frá því að ná lágmörkum fyrir HM í frjálsum sem fer fram í Peking seinna í þessum mánuðum en hún gæti samt fengið að taka þátt.

Frjálsíþróttasambandið segir frá því á heimasíðu sinni að Aníta sé í úrvalshópi og gæti því hlotið keppnisrétt á HM en það kemur í ljós í dag eða á morgun.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið breytti á þessu ári vinnureglu sinni við skilgreiningu á keppnisrétti íþróttamanna á HM.

Gefin voru út eitt árangursviðmið í hverri grein sem veitti sérsamböndum þjóða einhliða ákvörðun um þátttökurétt íþróttamanna.

Árangursviðmið IAAF, Alþjóða frjálsíþróttasambandsins, voru sögulega ströng en samhliða var ákveðinn fjöldi keppenda eftir greinum skilgreindur. Í ýmsum greinum eru færri sem náðu árangursviðmiðum IAAF en sem nam fjölda þeirra keppenda sem IAAf hafði fyrirfram ákveðið að öðluðust þátttökurétt á mótinu.

Nokkrar þjóðir eiga fleiri en þrjá íþróttamenn sem náðu árangursviðmiði IAAF í einhverri grein en senda ekki alla á HM.

Skráningum var skilað inn í gær og keppnislistar birtir í dag eða á morgun. Aníta Hinriksdóttir á því möguleika á að komast á HM samkvæmt skilgreiningu IAAF um fjölda keppenda sem fá þátttökurétt í 800 metra hlaupi kvenna.

Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir er eini íslenski keppandinn sem hefur tryggt sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í Peking sem hefst 22. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×