Handbolti

Þýska handknattleikssambandið óánægt með Brand

Heiner Brand.
Heiner Brand. vísir/getty
Það eru átök í þýska handboltanum og þýska handknattleikssambandið er ekki ánægt með fyrrum landsliðsþjálfarann, Heiner Brand.

Brand réðst harkalega, og persónulega, að Bob Hanning, varaforseta þýska handknattleikssambandsins, í viðtali og sambandið hefur í kjölfarið sent frá sér yfirlýsingu þar sem það fordæmir hegðun Brand.

„Það verður að virða málfrelsi en það er ekki hægt verja svona persónulegar árásir," segir í yfirlýsingunni.

Brand segir að ástæðan fyrir því að allt sé í upplausn hjá sambandinu sé Hanning. Hann hafi klofið sambandið í tvennt. Allt snúist um hann og hans persónu. Hanning sé sjálfselskur, hugsi bara um afturendann á sjálfum sér og noti fólk.

Brand segist ekki vera einn um þessa skoðun sína. Það séu margir í þýska handboltaheiminum óánægðir með Hanning en þori ekki að tjá sig um málið. Hann hafi verið að tala fyrir hönd margra með því að gagnrýna Hanning.

Brand var þjálfari Þýskalands er liðið varð heimsmeistari árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×