Körfubolti

Leikmennirnir völdu Harden sem verðmætasta leikmanninn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
James Harden var valinn verðmætasti leikmaðurinn.
James Harden var valinn verðmætasti leikmaðurinn. Vísir/getty
James Harden var í gær valinn verðmætasti leikmaður (e. Most Valuable Player) síðasta tímabils í NBA-deildinni í sérstakri athöfn leikmannasamtakanna. Var þetta í fyrsta sinn sem leikmannasamtökin í NBA-deildinni héldu sína eigin verðlaunahátíð.

Stephen Curry vann nokkuð öruggan sigur í opinbera valinu sem fjölmiðlamenn ytra sjá um en leikmenn deildarinnar hafa lengi talað um að þeir ættu að hafa eigin verðlaun þar sem þeir sjá deildina í öðru ljósi en þeir sem fjalla um hana.

Kom það á daginn í valinu en James Harden var með að meðaltali fleiri stig í leik ásamt því að taka fleiri fráköst en Curry en Curry hafði betur í sigurhlutfalli liðs og skilvirknisstuðli (e. Player efficiency rating, PER).

Curry fór þó ekki tómhentur heim en hann fékk verðlaun á borð við besti leikmaðurinn á ögurstundu, erfiðasti leikmaðurinn að verjast gegn. Þá tók hann við ásamt liðsfélögum sínum verðlaunum fyrir besta heimavöllinn.

LeBron James sem var kosinn varaforseti samtakanna í febrúar fór heldur ekki tómhentur heim en hann var sá leikmaður sem flestir viðurkenndu að þeir vildu fá í lið sitt. Þá vakti athygli þegar DeAndre Jordan, leikmaður Los Angeles Clippers, var valinn besti varnarmaður deildarinnar en leikmennirnir sem voru í efstu tveimur sætunum hjá fjölmiðlamönnunum, Draymond Green og Kawhi Leonard, voru ekki meðal efstu fjögurra sætanna.

Þá fengu bakverðirnir Ray Allen og Allen Iverson sérstök heiðursverðlaun ásamt því að Chris Paul, forseti samtakanna, var heiðraður fyrir störf sín innan sem utan vallarins.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×