Innlent

Hvar verður besta veðrið um verslunarmannahelgina?

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Þjóðhátíð í Eyjum í fyrra.
Frá Þjóðhátíð í Eyjum í fyrra. vísir/óskar
Mesta ferðahelgi ársins, verslunarmannahelgin, er framundan. Margir verða á faraldsfæti enda er mikið af útihátíðum víða um land. Má þar nefna Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, Eina með öllu á Akureyri, Mýrarboltann á Ísafirði, Neistaflug á Neskaupsstað og Síldarævintýri á Siglufirði. Þá verða KFUM og KFUK með Sæludaga í Vatnaskógi og Hvítasunnukirkjan verður með Kotmót sitt á Hvolsvelli. Innipúkinn verður svo haldinn í Reykjavík.

Eflaust eru flestir ferðalangar farnir að velta fyrir sér hvar besta veðrið verður. Að sögn Hrafns Guðmundssonar, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, má búast við því að verðið verði einna best suðvestanlands „svona yfir það heila,“ eins og hann orðar það.

Ætti að haldast þurr á föstudaginn

„Það verður fínasta veður víðast hvar á föstudaginn. Það verður kannski eitthvað hvasst ennþá allra syðst og það verður ennþá svolítið svalt fyrir norðan. Hitinn mun kannski rétt slefa í 10 gráðurnar þar,“ segir Hrafn.

Hann ætti því að haldast þurr á föstudeginum um allt land en á laugardeginum er spáð rigningu á Vestfjörðum og jafnvel fyrir norðan. Enn er þó óvissa í spánum varðandi hversu mikið muni rigna norðanlands.  

Á sunnudag er því spáð að stytti upp á Vestfjörðum og rofi til. Það ætti því að vera ágætis veður þar seinnipart sunnudags og mánudag.

Hægur vindur og sól í Eyjum

Sólin ætti einnig að brjótast fram á Akureyri á sunnudeginum. Þá er einnig spáð bjartviðri fyrir norðan á mánudeginum.

Á Austfjörðum ætti að sjást eitthvað til sólar alla daga um helgina og ekki er spáð úrkomu.

Það ætti svo að viðra vel á þjóðhátíðargesti á laugardag og sunnudag þar sem spáð er hægum vindi, sólin ætti að láta sjá sig og það verður þurrt að mestu.

Mesta óvissan í spánni er svo varðandi mánudaginn.

„Það er djúp lægð hérna suður af landinu sem er að koma. Spurningin er hversu nálægt hún verður eða hversu hratt hún kemur til okkar,“ segir Hrafn. Spáin núna gefur til kynna að hún nái inn á mánudagskvöld eða aðfaranótt þriðjudags en þá ætti að vera farið að hvessa við suður-og suðausturströndina seinni partinn á mánudag.

„Ef að spáin rætist svona þá verður veðrið best á norðanverðu landinu á mánudag. Þar verður þurrt og búið að hlýna talsvert þar.“

Textaspá Veðurstofu Íslands fyrir verslunarmannahelgina:

Á föstudag:

Norðan og norðaustan 3-10 metrar á sekúndu. Skýjað og úrkomulítið norðan til á landinu. Víða bjartviðri annars staðar, en möguleiki á rigningu allra syðst. Hiti 6 til 17 stig, hlýjast suðvestanlands.

Á laugardag:

Norðan 8-13 metrar á sekúndu vestast, annars hægari vindur. Skýjað með köflum sunnanlands og á Austfjörðum, en súld eða rigning á norðurhelmingi landins. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast syðst.

Á sunnudag:

Austlæg eða breytileg átt 3-8 metrar á sekúndu. Skýjað með köflum og smáskúrir á stöku stað. Hiti 8 til 16 stig.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):

Útlit fyrir vaxandi austanátt. Bjart með köflum, en þykknar upp um landið suðaustanvert. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Sjá nánar á veðurvef Vísis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×